Trítlateljarar - Veitur nýta nýja tækni til mælinga á örverum í neysluvatni

24. september 2020 - 12:44

Veitur hafa tekið í notkun sjálfvirkar frumuflæðissjár sem gefa samfellda sýn á magn örvera og breytingar á fjölda örvera í neysluvatni. Mælitækið, sem kallað hefur verið trítlateljari innanhúss hjá Veitum, er þróað af Sigrist Photometer AG í Sviss og var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna á tækni- og nýsköpunarviðburðinum AquaTech í lok árs 2019. Það er hið eina sinnar tegundar sem framkvæmir sjálfvirkt allt ferli frumuflæðimælingar, þ.e. allt frá sýnatökunni sjálfri og að veflausnum sem sjá um miðlun á niðurstöðum greininga til notandans. Með frumuflæðissjánum er hægt að stýra gæðum neysluvatns í Reykjavík, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi á mun skilvirkari hátt en áður hefur þekkst. 

Tók áður þrjá daga – nú í rauntíma

Frumuflæðissjár greina allar örverur í vatni, hvort sem þær eru skaðlausar eður ei, og skila niðurstöðum mælinga á stafrænu formi á allt að 30 mínútna fresti. Mælingarnar eru nákvæmar og næmar fyrir breytingum á fjölda örvera í vatninu. Nýju tækin nýtast m.a. vel í leysingum og mikilli úrkomu þegar mesta hættan er á aukningu örvera í vatnsbólum. Þau greina þó aðeins fjölda en ekki tegundir en aukning í heildarmagni örvera er notuð sem vísbending um minnkandi neyslugæði vatnsins. Frumuflæðissjárnar, sem gefa niðurstöður í rauntíma, eru bylting miðað við þá aðferð sem áður var notuð til að fylgjast með örverubreytingum í neysluvatni, en sú skilaði lokaniðurstöðum mælinga eftir þrjá daga. 

Sverrir Guðmundsson:

„Kalda vatnið okkar er dýrmæt auðlind sem við þurfum að vernda með öllum tiltækum ráðum. Við hjá Veitum leggjum mikla áherslu á að tryggja viðskiptavinum hreint og tært vatn og þess vegna er trítlateljarinn kærkomin viðbót við okkar eftirlit með vatnsgæðum“, segir Sverrir Guðmundsson, sérfræðingur vatnsveitu í nýsköpun og tækni hjá Veitum.

Vatnið tekið þar sem bestu gæðin er að finna

Veitur starfrækja vatnsból Reykvíkinga í Gvendarbrunnum, Myllulæk og Vatnsendakrikum í Heiðmörk. Fjöldi borhola er nýttur til að sækja vatnið í grunnvatnsstraumana sem þar liggja en þá hefur það runnið í gegnum hraunið þar sem það hreinsast á náttúrulegan hátt. Við ákveðnar aðstæður, svo sem hláku eða mikið vatnsveður, getur yfirborðsvatn komist óhreinsað ofan í grunnvatnsstraumana og þaðan í vatnsbólin með tilheyrandi hættu á aukningu örvera í neysluvatninu. Við þessu hefur verið brugðist með því að færa vinnslu á vatni milli svæða en sumar holur eru viðkvæmari fyrir aukningu örvera af þessum sökum en aðrar. Frumuflæðissjárnar gera Veitum kleift að fylgjast í rauntíma með þessum breytingum í vatninu og þannig velja vatnstökuholur eftir því hvar bestu gæðin er að finna hverju sinni.