Tvær nýjar fuglategundir sáust á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk

02. janúar 2020 - 13:20

Tuttugasta og fjórða útgáfa af árlegri skýrslu um fugla- og dýralíf á vatnsverndarsvæðu í Heiðmörk er komin út. Í skýrslunni er samantekt á fugla- og dýralífi í Heiðmörk og nágrenni árið 2019. Heiðmörkin er vatnsverndarsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins og því bæði eðlilegt og mikilvægt að fylgst sé með tegundum og fjölda fugla og spendýra sem þar þrífast. 

Tvær nýjar fuglategundir sáust á vatnsverndarsvæðinu árið 2019, dverggoði og bjargdúfa, og alls eru nú skráðar 84 fuglategundir í skýrslunni. Sé litið til spendýra má sjá að minkum hefur fjölgað og á árinu voru veiddir fleiri minkar en nokkru sinni fyrr, eða 28 talsins. 

Höfundur skýrslunnar er Hafsteinn Björgvinsson, umsjónarmaður vatnsverndarsvæða höfuðborgarinnar. Frá því Hafsteinn hóf fyrst störf við vatnsbólin í Heiðmörk 1984 hafa orðið mikil umskipti á fjölda ýmissa tegunda og nokkrar nýjar tegundir hafið búsetu þar eða viðdvöl og aðrar hafa fært varpstöðvar sínar eða horfið af svæðunum.

Skýrsluna prýðir fjöldi mynda sem flestar eru teknar af höfundi hennar. Meðfylgjandi mynd er af dverggoða. 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.