Unnið að gangsetningu skólphreinsistöðvar á Kjalarnesi

22. september 2017 - 10:42

Veitur vinna nú að gangsetningu og prófunum á hreinsistöð á Kjalarnesi. Rekstur stöðvarinnar er stórt og langþráð framfaraskref í fráveitumálum Kjalnesinga og með henni verða öll íbúðarhverfi Reykjavíkur tengd skólphreinsistöðvum.

Á miðvikudaginn var um helmingur íbúahverfisins (austurhlutinn) tengdur frá rotþró og yfir á nýja fráveitukerfið.

Byrjað var á því að tryggja að yfirfall frá hreinsistöðinni virkaði sem skyldi og var því skólp á yfirfalli frá hreinsistöðinni um tíma. Mikilvægt er að tryggja virkni yfirfallanna, því ef þau eru ekki í lagi getur flætt upp í fráveitukerfið hjá notendum. Nú fer skólpið í gegnum hreinsistöðina og hreinsibúnaður keyrður og verður svo alla helgina.  Á næstu dögum halda prófanir og stillingar stöðvarinnar áfram og er vonast til þess að hún verði komin í fullan rekstur í kringum mánaðarmótin.  Á meðan á því nauðsynlega ferli stendur getur komið upp sú staða að hleypa þurfi skólpi í sjó tímabundið.

Mikið átak hefur verið gert í fráveitumálum á Íslandi síðustu áratugina. Hlutfall íbúa sem er tengt skólphreinsistöð hefur vaxið úr 6% í 84% á aðeins aldarfjórðungi.

https://www.veitur.is/spurningar-og-rad/fraveita