Vatni úr hitaveituholu veitt kældu í fjöru

18. október 2019 - 13:04

Ekki rennur lengur heitt vatn á yfirborði við göngustíg frá hitaveituholu sem heitt vatn hefur streymt uppúr í Grafarvogi. Heita vatninu sem kemur úr holunni, og er nú um 60°C heitt, hefur verið veitt í drenlögn sem liggur í fjöru þaðan sem það rennur út í sjó. Í dag verða brunaslöngur lagðar að holunni til að kæla vatnið svo hiti þess fari niður fyrir 30°C. Með þessum aðgerðum er hætta fyrir menn og dýr ekki til staðar og gufa frá holunni er talsvert minni.

Í holunni eru staðsettir mælar sem gegna mikilvægu hlutverki í stóru verkefni Veitna í Geldinganesi þar sem verið er að örva hitaveituholu en freista á þess að auka vatnsstreymi í henni. Að loka holunni i Grafarvogi hefði mikil áhrif á framgang þess.

Fylgst verður grannt með holunni á meðan á þessu stendur og er starfsfólk Veitna tilbúið til að grípa til frekari aðgerða ef rennslið úr henni eykst.