Vatnsgjald lækkar víða hjá Veitum

08. mars 2018 - 19:15

Ákveðið hefur verið að vatnsgjald Veitna lækki hjá flestum vatnsveitum fyrirtækisins. Lækkunin verður 10% í stærstu veitunum – í Reykjavík og á Akranesi – og svo veltur hlutfallið á afkomu hverrar vatnsveitu Veitna. Þannig verður lækkunin lítið eitt minni í Grundarfirði en meiri í  Stykkishólmi.

Góð afkoma

Í dag var tilkynnt um rekstrarniðurstöðu ársins 2017 og gaf hún tilefni til þessa. Góð tök á rekstrarkostnaði hafa leitt til þess að verð á raforkudreifingu lækkaði tvisvar á síðasta ári og í ársbyrjun 2017 lækkaði vatnsgjaldið einnig umtalsvert. Raunlækkun á rafmagnsdreifingu hjá Veitum og köldu vatni nemur því um 23% á rúmu ári. Verulegar fjárfestingar í uppbyggingu fráveitukerfa og í stofnæðum hitaveitu hafa haldið aftur af verðlækkun fyrir þá þjónustu.

Endurálagning

Vatnsgjald er lagt á í upphafi hvers árs og greiðslum dreift á níu mánuði ársins, frá febrúar fram í október. Lækkunin, sem ákveðin hefur verið, gildir fyrir álagningu ársins 2018 og gildir því allt frá síðustu áramótum. Ákvörðunin nú nær ekki til annarra liða gjaldskrár Veitna fyrir kalt vatn.

Á næstu dögum verður endurálagningin reiknuð út. Greiðsluseðlarnir fyrir apríl munu taka mið af eldri álagningunni en það sem eftir lifir ársins taka mið af lækkuninni. Þeir viðskiptavinir sem þegar hafa greitt fyrir allt árið fá inneign og verður haft samband við þá um ráðstöfun hennar.