Vatnsveituframkvæmdir meðfram Kringlumýrarbraut

07. júní 2018 - 15:25

Þessi frétt verður uppfærð eftir því sem framkvæmdum vindur fram.

--------

Upphafleg frétt 7. júní 2018:

Í byrjun næstu viku hefjast framkvæmdir á vegum Veitna og Reykjavíkurborgar vegna endurnýjunar á stofnlögn vatnsveitu, gerð hjóla- og göngustíga og hljóðveggjar meðfram Kringlumýrarbraut vestanverðri, á kafla milli Miklubrautar og Bústaðavegar. Framkvæmdir munu standa fram á haust.

Byrjað verður næst Miklubraut. Um miðjan júlí þarf að loka Hamrahlíð í um tvær vikur en þá verður vatnslögnin lögð undir götuna og tengd öðrum lögnum sem þar eru. Nánari tímasetning þess verður kynnt þegar nær dregur. Meðan á lokuninni stendur þarf að fara aðrar leiðir inn í hverfið og út úr því. Þær helstu eru um Litluhlíð, sem tengist Bústaðavegi,  og Lönguhlíð, sem tengist Miklubraut.

Viðbúið er að þrengja þurfi Kringlumýrarbraut til suðurs um eina akrein öðru hvoru meðan á framkvæmdinni stendur. Miklabraut er alveg utan framkvæmdasvæðisins.

Hvað Veitur varðar er verkið þáttur í mikilli endurnýjun stofnæða vatnsveitunnar með þann tilgang að auka rekstraröryggi vatnsveitunnar og koma til móts við aukna þörf á köldu vatni í vesturhluta borgarinnar, m.a. til brunavarna. Haldið verður áfram sumarið 2019 með kaflann sunnan byggðarinnar við Stigahlíð.

Þessa framkvæmd nýtir Reykjavíkurborg til að endurnýja göngu- og hjólastíga meðfram Kringlumýrarbraut. Jafnframt verður reistur hljóðveggur meðfram byggðinni við Stigahlíð til að draga úr ónæði þar vegna umferðar.

Eins og jafnan þurfa vegfarendur – hvaða ferðamáta sem þeir hafa – að gæta varúðar við framkvæmdasvæðið og fara að merkingum sem settar verða upp, þar á meðal um hjáleiðir. Sérstakar merkingar verða fyrir hjáleiðir akandi umferðar, hjólandi og gangandi.