Veitur fá styrk til rannsókna á jarðhita innan borgarmarka

23. október 2020 - 16:00

Veitur fengu á dögunum styrk til þátttöku í samevrópska verkefninu RESULT til rannsókna á jarðhita innan borgarmarka. Styrkurinn er veittur af Geothermica sem er alþjóðlegur sjóður sem styrkir rannsóknir á jarðhita og er Rannís íslenski styrkjandinn. Verkefnið er samstarfsverkefni Veitna, ÍSOR og erlendra samstarfsaðila í Hollandi og Írlandi og er það leitt af hollensku vísindarannsóknarstofnuninni TNO.

RESULT verkefnið gengur meðal annars út á að bæta jarðhitanýtingu innan borgarmarka. Meðal þess sem skoðað verður er hvort hægt sé að nýta betur jarðhita á svæðum þar sem búið er að bora, með umhverfissjónarmið og loftslagsmál að leiðarljósi. Annað markmið rannsóknanna er að kortleggja nýtingu jarðhita innan borga, þannig að önnur lönd og borgir geti borið saman bækur sínar og lært hvert af öðru.

„Við sjáum þetta verkefni sem frábært tækifæri til þess að rýna þau áratugalöngu vinnslugögn sem við eigum, með það að markmiði að greina möguleika til bættrar auðlindanýtingar, sérstaklega í Elliðaárdalnum. Það verður áhugavert að vinna með samstarfsaðilum í verkefninu, bæði ÍSOR hér á landi og erlendu samstarfsaðilunum í Hollandi og Írlandi, og fá að njóta góðs af þeirra reynslu, t.d. hvað varðar bortækni,“ segir Sigrún Tómasdóttir, sérfræðingur í jarðvísindum.

Veitur hafa mikla þekkingu og reynslu af nýtingu jarðhita innan borgarmarka enda hefur fyrirtækið og forverar þess rekið hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu í áratugi.  Stefna Veitna er að deila áfram allri þeirri þekkingu sem fyrirtækið getur miðlað, m.a.til annarra landa sem eru að stíga sín fyrstu skref í átt að jarðhitanýtingu. Það er mikilvægt þegar kemur að loftlagsmálum.

Veitur reka þrettán hitaveitur; sú á höfuðborgarsvæðinu er stærst, fimm eru á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi. Hitaveiturnar þjóna um 65% íslensku þjóðarinnar.