Veitur semja við Securitas um uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum

15. febrúar 2021 - 08:32

Veitur hafa tekið tilboði Securitas í uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum hjá viðskiptavinum. Samningurinn er um 1.800 milljóna króna virði.  Um er að ræða mælaskipti á um 102 þúsund rafmagnsmælum, 55 þúsund varmamælum og 3 þúsund vatnsmælum á þjónustusvæði Veitna. 
Næstu mánuði verður hafist handa við undirbúning verkefnisins og þjálfun starfsfólks.  Lítið svæði verður tekið fyrir og það snjallvætt á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Þar verður um eins konar sannprófunarverkefni að ræða áður en hafist verður handa af fullum krafti við mælaskiptin um mitt næsta ár.  Áætlanir gera ráð fyrir að snjallmælavæðingu veitukerfanna verði að fullu lokið í árslok 2024.

Í samstarfinu við Securitas verður byggt á hugbúnaðarkerfum fyrirtækisins og traustum þjónustubakgrunni þess. Lögð verður áhersla á  umhverfisvæn vinnubrögð og horft til samfélagslegrar ábyrgðar. Starfsfólk Securitas sem kemur að mælaskiptunum mun eingöngu nota rafmagnsbíla í ferðum sínum til og frá viðskiptavinum og öllum mælum sem verða teknir niður verður fargað á ábyrgan hátt og mest allt efni endurnýtt.

Snjallmælar eru jákvætt skref í þróun veitukerfa og hafa stjórnvöld víða um heim gert kröfu um snjallvæðingu mæla. Ávinningur fyrir viðskiptavini og samfélagið í heild er mikill. Áætlunarreikningar munu heyra sögunni til og mánaðarlegir reikningar framvegis byggðir á raunnotkun. Því fylgir að viðskiptavinir geta átt von á árstíðarbundnum sveiflum í orkuútgjöldum. Með nýju mælunum hafa notendur einnig möguleika á að fylgjast með orkunotkuninni á „mínum síðum“ á vef Veitna og gera ráðstafanir til sparnaðar ef þurfa þykir. 

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna:

„Við erum ánægð með samninginn við Securitas sem er þjónustumiðað og framsækið fyrirtæki. Verkefnið er stórt og það skiptir miklu máli að hafa öfluga samstarfsaðila. Nýju mælarnir gera Veitum kleift að bæta þjónustu sína, til dæmis að bregðast skjótar við ef upp koma bilanir eða ef óeðlilegar breytingar verða á notkun viðskiptavina. Hefðbundnum heimsóknum til notenda mun fækka og álestur heyra sögunni til. Með snjallmælunum fást einnig meiri og betri upplýsingar og yfirsýn um veitukerfin sem nýtast til að gera umgengni um sameiginlegar auðlindir okkar enn ábyrgari.“

Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas:

„Við hjá Securitas erum þakklát og hæstánægð með að hafa skrifað undir samning við Veitur. Við erum stolt af því að fá tækifæri til að taka þátt í svo einstöku og víðamiklu tækniverkefni og munum leggja okkur öll fram við að skila faglegu og öruggu starfi. Securitas er öryggis- og tæknifyrirtæki með yfir 40 ára reynslu í þjónustu við heimili og fyrirtæki. Fyrirtækið er einn fjölmennasti vinnustaður rafiðnmenntaðra starfsmanna á Íslandi.  Þetta spennandi verkefni á mikla samleið með þeirri stafrænu vegferð sem Securitas er á þar sem lögð er áhersla á snjallvæðingu, gagnsæi og aukna sjálfvirkni.  Verkefnið er því í öruggum höndum hjá okkur“

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.