Veitureikningurinn lækkar um áramót

27. nóvember 2016 - 11:02

Um áramótin munu Veitur lækka gjöld fyrir raforkudreifingu og kalt vatn. Viðskiptavinir njóta þannig beint þess árangurs sem náðst hefur með Planinu, sérstakri fjárhagsáætlun sem unnið hefur verið eftir innan OR samstæðunnar frá árinu 2011. Því lýkur nú um áramót. Planið fól meðal annars í sér verulegan sparnað í rekstrinum sem aftur hefur leitt til betri afkomu þessara sérleyfisþátta sem lúta lögum um hámarksarðsemi. Miklar fjárfestingar í hitaveitum og fráveitum leyfa ekki lækkun og hækka þær í takti við vísitölur.

Rafmagnsdreifing lækkar um 5,8%

Gjaldið fyrir dreifingu rafmagns hjá Veitum lækkar um 5,8% um áramótin. Það er oft um helmingur rafmagnskostnaðar heimila. Aðrir liðir á rafmagnsreikningi Veitna eru flutningsgjald sem Landsnet fær og hækkar nú 1. desember, og svo opinber gjöld, jöfnunargjald og virðisaukaskattur. Söluhluti rafmagnskostnaðar heimila kemur fram á sérstökum reikningi. Veitur sjá um rafmagnsdreifingu frá miðjum Garðabæ í suðri til Akraness í vestri og þjóna um 56% landsmanna.

Kalt vatn lækkar um allt að 11,2%

Með breytingum á vatnsgjaldi nú um áramótin verður stigið skref í þá átt að gjaldið fyrir þjónustu hverrar vatnsveitu endurspegli kostnaðinn við rekstur hennar. Í Reykjavík og á Akranesi lækkar vatnsgjaldið um 11,2% og í Stykkishólmi um 8,8%. Vatnsgjald hjá öðrum vatnsveitum Veitna og gjald fyrir vatn eftir mæli hjá öllum vatnsveitunum verður óbreytt.

Almennt vatnsgjald ræðst af stærð húsnæðis en ekki verðmæti þess. Í mörgum sveitarfélögum er vatnsgjald hlutfall af fasteignamati. Vatnsveitur Veitna eru í fimm sveitarfélögum og þjóna um 40% landsmanna.

Hitaveita hækkar um 0,48%

Gjaldskrá hitaveitna Veitna hefur fylgt vísitölu neysluverðs undanfarin ár og gerir það áfram um sinn. Miklar fjárfestingar standa yfir við endurnýjun stofnlagna, til dæmis lagna milli Reykjavíkur og jarðhitasvæðanna í Mosfellsbæ og frá Deildartunguhver um byggðir Borgarfjarðar og á Akranes. Gjaldskrá hitaveitna hækkaði síðast um mitt ár og þarf að hljóta staðfestingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Fráveita hækkar um 1,6%

Gjald fyrir fráveituþjónustu Veitna hefur fylgt breytingum á byggingarvísitölu og endurspeglar hækkunin nú breytinguna á milli ára. Fráveitugjaldið hjá Veitum miðast við stærð húsnæðis. Á meðal fjárfestinga sem standa yfir er uppbygging nýrra fráveitukerfa á Kjalarnesi, Akranesi og í Borgarbyggð. Af þeim eru miklar umhverfisbætur og að þeim loknum mun skólp ekki lengur streyma út um fjölda lítilla útrása í fjörurnar. Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík, Borgarnesi, á Akranesi, Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og í Reykholti.

Mánaðarlegur reikningur lækkar

Að öllum gjaldskrárbreytingum Veitna samanlögðum lækkar veitukostnaður heimilis í Reykjavík. Miðað við algenga ársnotkun heimilis lækka veitugjöldin um tæplega 4.400 krónur á ári. Myndin  hér að neðan sýnir hvernig algeng mánaðarleg útgjöld heimilis breytast.

Inga Dóra Hrólfsdóttir

„Við erum ánægð með þann árangur sem náðst hefur í rekstri veitnanna og að geta látið viðskiptavini okkar njóta hans,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna. „Það er mikið að gera hjá Veitufólki þessa dagana, margar nýbyggingar sem þarf að tengja. Við stöndum líka í endurnýjun og viðhaldi á mikilvægum hlutum margra veitukerfa; aðalæðum hitaveitna og vatnsveitna, aðveitustöðvum rafveitunnar og nýjum fráveitum. Veitukerfin eru stór en samanlögð lengd allra veitukerfa Veitna er um 9.000 kílómetrar,“ segir Inga Dóra.