Verðbreytingar um áramót

01. janúar 2017 - 13:10

Um áramótin lækkuðu Veitur gjöld fyrir raforkudreifingu og kalt vatn. Miklar fjárfestingar í hitaveitum og fráveitum leyfa ekki lækkun og hækka þær í takti við vísitölur.

Gjaldið fyrir dreifingu rafmagns hjá Veitum lækkar um 5,8% um áramótin. Það er oft um helmingur rafmagnskostnaðar heimila. Aðrir liðir á rafmagnsreikningi Veitna eru flutningsgjald sem Landsnet fær og svo opinber gjöld, jöfnunargjald og virðisaukaskattur. Söluhluti rafmagnskostnaðar heimila kemur fram á sérstökum reikningi.

Vatnsgjald breyttist um áramótin. Gjald fyrir þjónustu hverrar vatnsveitu endurspeglar kostnað við rekstur hennar. Í Reykjavík og á Akranesi lækkar vatnsgjaldið um 11,2% og í Stykkishólmi um 8,8%. Vatnsgjald hjá öðrum vatnsveitum Veitna og gjald fyrir vatn eftir mæli hjá öllum vatnsveitunum verður óbreytt.

Verðskrá hitaveitna Veitna hefur fylgt vísitölu neysluverðs undanfarin ár og gerir það áfram um sinn. Verðskrá hitaveitna hækkaði síðast um mitt ár 2016 og síðan þá hafa orðið breytingar á vísitölu neysluverðs og hækkar verðskrá hitaveitna samsvarandi, eða um 0,48%.

Gjald fyrir fráveituþjónustu Veitna hefur fylgt breytingum á byggingarvísitölu og endurspeglar hækkunin nú breytinguna á milli ára og verður 1,6%.

Samanlagðar verðskrárbreytingar Veitna lækka veitukostnað heimilis í Reykjavík. Miðað við algenga ársnotkun nemur lækkunin tæplega 4.400 krónum á ári.

Rétt er að taka fram að breytingar á gjaldskrám annarra fyrirtækja og/eða opinberra aðila hafa áhrif á þau gjöld sem neytendur á endanum greiða fyrir þjónustuna.

Spurt og svarað um verðskrárbreytingar.