Verulega þrengt að umferð um Kringlumýrarbraut - uppfært 21. sept. | Veitur

Fréttir og tilkynningar

Verulega þrengt að umferð um Kringlumýrarbraut - uppfært 21. sept.

07. september 2017 - 15:32

Uppfært 22. september

Það er ánægjulegt að segja frá því að nú er framkvæmdunum að ljúka. Í gær var malbikað og umferð hleypt á þær akreinar sem lokaðar hafa verið, fjórum dögum á undan áætlun. Við erum hæstánægð með það.

Eftir er að steypa kanta og ganga frá miðeyjunni og þess vegna mun þurfa að þrengja götuna örlítiðog áfram er unnið í grasinu við hliðin á beygjuakrein til austurs og verður sú akrein einnig þrengd eða lokuð. Þetta eru minniháttar þrengingar miðað við síðustu viku þannig að þær ættu að hafa lítil áhrif á umferð.

Uppfært 18. september kl. 17:00

Á morgun, þriðjudaginn 19. september, hefst vinna við seinni hluta framkvæmda á Kringlumýrarbraut og fækkar þá akreinum úr fjórum í þrjár. Ætíð verða tvær akreinar opnar í þá átt sem mesti umferðarstraumurinn liggur. Þetta hefur gengið þokkalega hingað til, þökk sé vegfarendum.

Uppfært 15. september kl. 11:45

Nú er að hefjast seinni hluti framkvæmda Veitna á Kringlumýrarbraut. Búið er að leggja vatnsæð yfir akreinina til suðurs og ljúka vinnu í miðeyju götunnar. Þar var flóknasti hluti verksins; steypa þurfti festur fyrir lögnina og tengja hana við eldri lögn sem liggur eftir miðeyjunni. 

Á morgun, þriðjudaginn 19. september, mun verktakinn hefjast handa við að grafa upp akbrautirnar til norðurs og klára að leggja vatnsæðina undir Kringlumýrarbrautina. Fækkar þá akreinum frá því sem nú er, úr fjórum í þrjár. Umferð verður hagað þannig að fyrir hádegi verða tvær akreinar til norðurs og ein til suðurs en síðdegis verða tvær akreinar til suðurs og ein til norðurs. Er þetta gert til að hafa ætíð fleiri akreinar í þá átt sem umferðarþunginn er meiri. 

Uppfært 15. september kl. 11:45

Tenging nýju lagnarinnar við eldri lögn sem liggur eftir miðeyju Kringlumýrarbrautar gekk vel. Við þurfum að steypa festur fyrir lögnina á staðnum; búið er að slá upp fyrir þeim og steypt var í gær, fimmtudag. Um helgina fyllum við í skurðinn í vesturakreininni eftir kúnstarinnar reglum og malbikum þar strax eftir helgi.

Síðan taka akreinarnar austan við miðeyjuna við og við dreifum nánari upplýsingum um tilhögun þess hluta verksins eftir helgi.

Okkur þótti vænt um að sjá þessa frétt á mbl.is og þökkum vegfarendum tillitssemina og þolinmæðina.

Uppfært 13. september kl. 11:00

Verkið fer vel af stað. Eftir miðeyjunni á Kringlumýrarbraut liggur vatnsæð sem við þurfum að tengja við nýju lögnina. Búið er að grafa að henni og vel lítur út með tengingu.

Við þökkum vegfarendum fyrir tillitssemi við verkstaðinn og hversu margir virðast hjálpa til við að draga úr áhrifum framkvæmdanna á umferð.

Hér eru nokkrar tillögur sem okkur hafa borist um mótvægisaðgerðir af hálfu vegfarenda við þrengri umferðaræðum;

 • velja aðra leið ef kostur er
 • taka strætó
 • hjóla
 • ganga
 • samnýta bíla
 • hnika til ferðatíma.

UM VERKIÐ
Lögnin sem verið er að endurnýja er frá 1962

Hún er aðalflutningsæð kalda vatnsins í vesturhluta borgarinnar og á Seltjarnarnes

Hún þjónar:

 • hátt í 40 þúsund íbúum
 • fjölda hótela og gististaða
 • fjölda veitingastaða
 • stærsta sjúkrahúsinu og fjölmennustu skólunum
 • stórum matvælavinnslum við höfnina
 • brunavörnum í þessum borgarhluta!

Lagning nýju lagnarinnar er þáttur í fyrirbyggjandi viðhaldi

Nýja lögnin er 80 sentimetrar í þvermál

Upphafleg frétt frá 7. september

Búast má við miklum umferðartöfum á Kringlumýrarbraut dagana 12.-26. september þegar Veitur endurnýja stofnlögn kalds vatns frá lokahúsi við Stigahlíð 33a yfir Kringlumýrarbraut. Með nýrri lögn er rekstraröryggi vatnsveitunnar aukið og komið er til móts við aukna þörf á köldu vatni vegna þéttingar byggðar í vesturhluta borgarinnar, m.a. til brunavarna.

Hafist verður handa við þverun götunnar á þriðjudagsmorgun og eins og fyrr segir stendur verkið yfir í tvær vikur. Þann tíma verður verulega þrengt að umferð en þó verða opnar akreinar í báðar áttir. Á meðan á framkvæmdunum stendur þurfa ökumenn á þessari leið að gera ráð fyrir auknum ferðatíma, sérstaklega á háannatíma á morgnana og síðdegis. Verið getur að þrengingin á Kringlumýrarbraut hafi einnig áhrif á umferð um Miklubraut. Er vegfarendum bent á að fara aðrar leiðir sé þess kostur.

Á kortinu má sjá hvar sá hvar Kringlumýrarbrautin verður þveruð til að endurnýja vatnslögnina.  

Starfsfólk Veitna biður vegfarendur velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar framkvæmdir skapa.