Vinna að hefjast við Reykjaæðar í Ártúnsholti

24. maí 2017 - 14:04

Innan skamms hefjast framkvæmdir við seinni áfanga endurnýjunar Reykjaæða, stofnlagna hitaveitu, í Ártúnsholti. Um er að ræða um 500 m kafla frá mörkum byggðarinnar í Ártúnsholti að vestanverðu að austurenda hitaveitustokka yfir Elliðaárnar (sjá meðfylgjandi yfirlitsmynd framkvæmda). Framkvæmdir fyrri áfanga fóru fram á síðasta ári en þá voru endurnýjaðar lagnir frá gatnamótum Höfðabakka og Strengs, í gegnum byggð á Ártúnsholtinu og að Silunga- og Urriðakvísl.

Reykjaæðar eru flutningsæðar hitaveitu frá borholum í Mosfellsbæ að hitaveitugeymum í Öskjuhlíð. Tilgangur endurnýjunarinnar er að auka rekstraröryggi hitaveitunnar. Þessar meginflutningsæðar hitaveitunnar sjá um 40% alls höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni og eru komnar til ára sinna en þær voru lagðar á árunum 1974-1985. 

Eldri lagnirnar sem fjarlægja á eru stálpípur, einangraðar með steinull í steyptum stokkum. Í stað stokkanna, en eftir svipaðri leið, verða lagðar tvær foreinangraðar stálpípur og nýr göngustígur verður lagður að nokkru ofan á æðunum. 
 
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í október á þessu ári. Nokkuð rask verður við þessa nauðsynlegu framkvæmd og biðjum við íbúa að sýna því skilning.

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.