Vinna við færslu hitaveitu- og raflagna að hefjast við Reykjanesbraut

12. mars 2019 - 18:25

Vegna fyrirhugaðrar breikkunar Vegagerðarinnar á Reykjanesbraut þarf að færa hitaveitu- og háspennulagnir við brautina. Í samstarfi við HS Veitur hf. eru Veitur nú að hefja þá vinnu norðan megin við Reykjanesbrautina. Framkvæmdasvæðið nær frá kirkjugarðinum í Hafnarfirði að Suðurholti, sunnan við Hvaleyrarskóla. Framkvæmdir munu hefjast nú í mars og ljúka í júlí 2019. Kynningarfundur fyrir íbúa verður miðvikudaginn 13. mars kl. 17:30-18:30 í Hafnarborg. Fundurinn hefur verið auglýstur á vef Hafnarfjarðarbæjar og honum verður einnig streymt á Facebook síðu bæjarins.

Óhjákvæmilega fylgir framkvæmd sem þessari mikið rask og biðjum við ykkur að sýna því skilning. Talsverð umferð vörubíla og vinnutækja verður á svæðinu á verktíma. Lokun á götum verður auglýst sérstaklega. Gönguleiðir á svæðinu munu raskast hluta verktímans. Til að tryggja öryggi vegfarenda verða viðeigandi merkingar settar upp þar sem bent verður á hjáleiðir.

Verkið skiptist í 12 áfanga sem sýndir eru á meðfylgjandi yfirlitsmynd.