Byggt yfir borholur í Vatnsendakrikum

12. október 2016 - 13:14

Undirbúningur er nú hafinn fyrir framkvæmdir Veitna í Vatnsendakrikum. Byggja á yfir þrjár holur sem boraðar voru árið 1990 og leggja lagnir að þeim. Gert er ráð fyrir að holurnar verði nýttar til vatnstöku fyrir höfuðborgarsvæðið komi eitthvað upp í Gvendarbrunnum og til að koma til móts við aukna notkun vegna fjölgunar íbúa. 

Miklar öryggisráðstafanir eru gerðar vegna þessara framkvæmda þar sem þær eru á brunnsvæði Vatnsenda, viðkvæmum hluta vatnsverndarsvæðisins í Heiðmörk. Hreint og gott neysluvatn í nánd við byggð er ómæld auðlind sem ber að vernda með öllum tiltækum ráðum.

Veitur hljóta umhverfisviðurkenningu Borgarbyggðar

11. október 2016 - 11:32

Veitur hlutu fyrir skömmu umhverfisviðurkenningu Borgarbyggðar 2016 fyrir „snyrtilegustu lóð við atvinnuhúsnæði“.  Um er að ræða lóðina við Sólbakka 10 í Borgarnesi þar sem starfstöð Veitna á Vesturlandi, verkstæði og skrifstofur, er til húsa. Frágangi lóðarinnar lauk á síðasta ári en hún var girt, bílastæði malbikuð og gróður settur niður. 

Á myndinni eru Guðmundur Brynjúlfsson, svæðisstjóri Veitna á Vesturlandi, sem tók við viðurkenningarskjali frá Guðrúnu Hilmisdóttur, sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar.

Er hitakerfið tilbúið fyrir veturinn?

06. október 2016 - 11:59

Öll þekkjum við þá notalegu tilfinningu að koma inn blaut og hrakin úr íslenskum hráslaga inn í heita og notalega íbúð, setjast niður með heitan kaffibolla og finna ylinn leika um kaldan kroppinn.  Ekki er jafn notalegt að koma þannig  inn í kalda íbúð, allir ofnar rétt volgir og hvergi yl að fá.  Þá setjumst við ekki niður heldur hlaupum um alla íbúð fiktandi í hitastillum og öðrum stjórnbúnaði til að koma kerfinu í gang sem oft endar með símtali í píparann.

Þemadagar Veitna - hitaveitan í forgrunni

06. október 2016 - 11:08

Þessa dagana standa yfir þemadagar hjá Veitum en á ári hverju eru nokkrir dagar tileinkaðir einni af fjórum veitum fyrirtækisins; rafveitu, hitaveitu, vatnsveitu eða fráveitu. Að þessu sinni er það hitaveitan sem er í sviðsljósinu en Veitur sjá um 75% landsmanna fyrir heitu vatni til húshitunar og annarrar notkunar. Á þemadögunum verður lögð áhersla á að kynna hinar ýmsu hliðar  hitaveitunnar hér á heimasíðunni, á Facebook síðu Veitna og í fjölmiðlum.

Slökkt á götulýsingu í kvöld vegna norðurljósaspár

28. september 2016 - 12:47

Í kvöld verður slökkt á götulýsingu á völdum stöðum í Reykjavík svo íbúar og gestir geti notið magnaðrar norðurljósasýningar sem spáð er á himni þegar aldimmt verður orðið í kvöld og nótt.

Norðurljósin hafa glatt Reykvíkinga að undanförnu og svo verður einnig í kvöld 28. september samkvæmt norðurljósaspá. Reykjavíkurborg hefur því ákveðið að slökkva götulýsingu í völdum hverfum milli kl. 22 og 23 en þá eru góðar líkur á mikilli virkni norðurljósa.

Starfsfólk Veitna tekur virkan þátt í Iðnum og tækni

28. september 2016 - 09:22

Þessi flottu krakkar hafa hafið nám hjá OR í Iðnum og tækni. Um er að ræða samstarfsverkefni með Árbæjarskóla sem hefur það markmið að kynna hversu fjölbreytt störf og tækifæri iðn- og tækninám hefur upp á að bjóða. Námið byggir á fræðslu, verklegum æfingum og vettvangsferðum og taka margir starfsmenn OR samstæðunnar, þ.m.t. fjöldi starfsmanna Veitna, þátt í kennslunni.

Unnið að nýju verklagi við tengingar heimtauga

07. september 2016 - 15:44

Hjá Veitum er nú unnið að nýju verklagi við tengingu heimtauga í kjölfar hörmulegs vinnuslyss sem varð síðasta föstudag og olli láti starfsmanns. Upplýsingar um atburðarásina benda til þess að starfsmaðurinn hafi fylgt hefðbundnu verklagi og farið eftir öryggiskröfum sem gerðar hafa verið. Af þessum sökum liggur vinna niðri við tenginu nýrra raflagna í nýbyggingar á vegum Veitna þar til nýtt verklag verður virkjað. Gert er ráð fyrir að tengingar heimlagna muni verða tímafrekari í framtíðinni með auknum öryggiskröfum. 

Lagnir vatnsveitu endurnýjaðar

26. júlí 2016 - 14:56

Framkvæmdir tengdar nýju lokahúsi vatnsveitu í Stigahlíð eru nú í fullum gangi. Þessa dagana er unnið hörðum höndum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar við að endurnýja lagnir frá þeim stað er frá var horfið á síðasta ári. Þá var lögð 850 m lögn frá Laugavegi meðfram Kringlumýrarbraut. verða lagnir yfir í Stigahlíð endurnýjaðar og tengdar nýju lokahúsi eins og fyrr segir. Eins og sjá má á myndinni þarf að beina umferð gangandi vegfarenda annað og í byrjun ágúst verða tafir á umferð þegar grafa þarf upp og leggja lagnir undir Miklubrautina. Götunni verður þó ekki lokað.