Sækja um heimlögn

Frá og með 1. september 2018 er eingöngu hægt að sækja um heimlagnir á rafrænu formi á Mínum síðum Veitna. Þeir sem ekki eru í viðskiptum við Veitur geta skráð sig inn á Mínar síður með rafrænum skilríkjum.

Frá hverri veitu er almennt aðeins lögð ein heimlögn í hvert hús, en þó í hverja einingu par- og raðhúsa og hvern stigagang fjölbýlishúsa. Lega heimlagna er háð aðstæðum á lóð á hverjum stað en ætíð er reynt að fara stystu mögulegu leið frá dreifilögnum í götu.

Heimlagnaumsókn - leiðbeiningar

Tengileiðir

Útfærsla á hönnun og tengingu við dreifikerfi Veitna fer eftir stærð og notkun húsnæðisins. Nánari upplýsingar um hönnun og frágang heimlagna.

Húseigendur þurfa að hafa samband við önnur veitufyrirtæki þar sem það á við. Mjög áríðandi er að umsækjandi sæki samtímis um allar veitur sem hann óskar að fá tengdar, til að samnýta skurði og lagnaleiðir.

Umsókn um heimlögn

Brýnt er að vanda frágang umsóknar og tilgreina allar umbeðnar upplýsingar eins og form hennar gerir ráð fyrir. Koma þarf skýrt fram hvaða heimlögnum er óskað eftir og tilgreina byggingarstjóra, rafverktaka og pípulagnameistara eftir því sem við á.

Fylgigögn með umsókn

Gæta þarf þess að með umsókn fylgi öll umbeðin gögn sem tilgreind eru á umsóknareyðublaðinu.

Með umsókn um heimlögn þurfa að fylgja:

 • Samþykktar lagnateikningar með staðsetningu tengigrindar, aðaltöflu og mælatafla auk inntaks- sniðs eftir því sem við á.
 • Afstöðumynd í mælikvarða 1:500.
 • Grunnmynd sem sýnir þann hluta húss sem inntaksrými er í.
 • Þegar sótt er um heitt og kalt vatn, þarf að fylgja undirrituð þjónustubeiðni pípulagningameistara.
 • Fyrir stórar vatnslagnir þurfa að fylgja   teikningar sem sýna hvernig inntök eiga að snúa.
 • Fyrir heimtaugar stærri en 200 A þarf að skila inn afláætlun.

Með umsókn um bráðabirgðaheimlagnir í vinnuskúr fylgi afstöðumynd í mælikvarða 1:500 sem vinnuskúrinn hefur verið teiknaður inn á.

Fyrir sumarhús og mannvirki í strjálbýli og auglýsingaskilti o.þ.h. í þéttbýli þarf að framvísa byggingarleyfi.

Veitum er heimilt að gera athugasemdir við val á stærð heimlagna og krefjast frekari hönnunargagna ef um er að ræða frávik frá reynslutölum.

Tengigjöld

Umsækjandi er ábyrgur fyrir greiðslu tengigjalds fyrir hverja heimlögn samkvæmt verðskrá Veitna.

Veitur áskilja sér rétt til innheimtu viðbótarkostnaðar ef:

 • Óskað er eftir því að heimlagnir fari lengra en 20 m inn fyrir lóðarmörk miðað við götuhlið eða þá hlið lóðar sem heimlögn kemur að.
 • Heildarlengd heitavatnsheimæðar fer yfir 50 m.
 • Fyrirsjáanlegt er að kostnaður við lagningu heimlagnar verði meiri en 50% hærri en gildandi verðskrá segir til um, t.d. vegna klappar, frosins jarðvegs, lengdar eða yfirborðsfrágangs.
 • Óskað er eftir því að bráðabirgðaheimlögn nái lengra en 2 m inn fyrir lóðarmörk.
 • Ef Veitur þurfa að hverfa af verkstað vegna þess að öryggiskröfum ekki fullnægt.

Hæðarblað, heimlögn og inntaksstaður

Heimlögn er alltaf lögð stystu mögulegu leið frá dreifilögn í götu að inntaksstað að teknu tilliti til aðstæðna á lóð hverju sinni. Áður en heimlögn er lögð að húsi skal fylla að því og jafna lóð í endanlega hæð.

Inn á hæðarblað sem fylgir við lóðaúthlutun er merkt kvöð um inntaksstað heimlagna og lega fráveitulagna inn á lóð ásamt hæðarkvóta. Inntaksstaður er við útvegg á þeirri húshlið sem snýr að dreifilögnum.

Lóðarhafi ber allan umframkostnað sem af því leiðir að breyta út frá kvöðum sem fram koma á hæðarblaði.

Sýnishorn af hæðarblaði

Inntaksrými

Heimlagnir eru ekki lagðar í hús fyrr en inntaksrýmið er fokhelt og lokað á fullnægjandi hátt. Stærð inntaksrýmis fer eftir stærð heimlagna, umfangi tengibúnaðar og fjölda mæla.

Inntaksrými skal að öllu leyti vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar og í fjöleignarhúsum staðsett í sameign sem allir eigendur hafa aðgang að.

Aðgengi fyrir starfsmenn Veitna

Tryggja verður aðgengi starfsfólks Veitna að inntaksrýmum. Þessi kvöð nær meðal annars til allra mæla og mælagrinda, stofnloka, aðalvara, stofntengiboxa eða stofnvarkassa og stofnlagna.

Þar sem ekki er dagleg viðvera geta Veitur krafist þess að nauðsynlegum inntaks- og mælabúnaði verði komið fyrir utandyra í viðeigandi skáp sem húseigandi leggur til og er aðgengilegur starfsmönnum Veitna.