Heitir pottar

Hollráð um heita potta

Við hjá Veitum sjáum um rekstur allnokkurra hitaveitna og dreifum rafmagni til um 60% landsmanna. Margir líta á heita pottinn sem punktinn yfir i-ið þegar kemur að þægindum í sumarhúsinu.

Hitaveita eða rafmagn?

Þegar kemur að vali á heitum potti stendur valið á milli þess að kynda hann með rafmagni eða nota hitaveituvatn. Mikilvægt er að hafa í huga aðstæður á hverjum stað þannig að nýting á þeim auðlindum sem við búum yfir verði sem best.   

Við hvetjum viðskiptavini til að reikna dæmið til enda og bera saman kosti og galla mismunandi gerða heitra potta og fá álit fagfólks við valið.

Rekstrarkostnaður

Mikilvægt er að hafa í huga að staðsetning og einangrun potta hefur áhrif á rekstrarkostnað. Vel einangraður pottur með góðu loki heldur hitastigi vatnsins stöðugra en illa einangraður pottur sem stendur opinn. Þá skiptir máli þar sem sírennsli er í heita pottinum í hversu miklu mæli það er. Við leggjum áherslu á að fara vel með náttúruauðlindirnar og fara sparlega með hitaveituvatnið og rafmagnið. Við hvetjum því viðskiptavini til að setja upp orkusparandi kerfi fyrir heita potta.

Öryggismál

Mjög mikilvægt er að gætt sé öryggis í umgengni á heitum pottum, bæði hvað varðar hitastigið á vatninu og að hafa ætíð lok á honum þegar hann er ekki í notkun. Einnig er mikilvægt að tryggja að lokið sé vel fest hvort sem það er á eða ekki. Mikilvægt er að tryggja að aldrei geti farið of heitt vatn í pottinn.

Lagnir

Við veitum allar nauðsynlegar upplýsingar um hvernig best er að standa að lögnum við bústaði og þeim búnaði sem nauðsynlegur er til að njóta heitu pottanna áhyggjulaus. Hikið ekki við að hafa samband ef sumarhús þitt er á þjónustusvæði okkar.