Heitir pottar | Veitur

Heitir pottar

Við hjá Veitum sjáum um rekstur allnokkurra hitaveitna í vinsælum sumarhúsabyggðum sunnan- og vestanlands. Margir líta á heita pottinn sem punktinn yfir i-ið þegar kemur að þægindum í sumarhúsinu enda nýtist heitur pottur allri fjölskyldunni.

Hitaveitukyntur eða rafmagns?

Þegar kemur að vali á heitum potti stendur það á milli hitaveitukyntra potta og rafmagnskyntra. Helsti kosturinn við hitaveitukynta potta fyrir utan lágan rekstrarkostnað, er að vatnið er alltaf nýtt í pottinum sem er ólíkt rafmagnspottum þar sem sama vatnið er notað vikum og jafnvel mánuðum saman. Til að hægt sé að nota sama vatnið í svo langan tíma þarf að nota allskyns hreinsi- og sóttvarnarefni, viðhafa mælingar um ástand vatnsins og viðeigandi hreinsibúnaður verður að vera til staðar í pottinum. Helstu kostir rafmagnspotta er að þá er hægt að nota þar sem hitaveitu nýtur ekki við.

Kostnaður við rekstur

Meðfylgjandi er gróf viðmiðun um orkukostnað á heitum pottum. Hafa ber í huga að ef pottur er notaður reglulega þ.e. 10 sinnum eða oftar í mánuði, ætti í flestum tilfellum að vera hagstæðara að hafa sírennsli í hitaveitukyntum potti í stað þess að fylla og tæma í hvert skipti. Ef potturinn er mikið notaður, opinn lengi í senn og oft í viku er mun ódýrara að reka hitaveitukyntan pott.

  Hitaveita Rafmagn
Fyllt og tæmt eftir eitt skipti 120 kr. 600 kr.
Notkun í einn mánuð 1.200 kr. (sírennsli) 5.000 kr. (hringrás um síu)

Mikilvægt er að hafa í huga að staðsetning og einangrun potta hefur einnig áhrif á rekstrarkostnað. Mjög mikilvægt er að fólk gæti að öryggi í umgengni á heitum pottum, bæði hvað varðar hitastigið á vatninu og að hafa ætíð lok á honum þegar hann er ekki í notkun. Einnig er mikilvægt að tryggja að lokið sé vel fest hvort sem það er á eða ekki.

Við veitum allar nauðsynlegar upplýsingar um hvernig best er að standa að lögnum við bústaði og þeim búnaði sem nauðsynlegur er til að njóta heita vatnsins áhyggjulaus. Hikið ekki við að hafa samband  ef sumarhús þitt er á þjónustusvæði okkar og þig vantar heitt vatn í bústaðinn.

Hollráð

Notum ofnloka með hitaskynjara til að jafna innihitann