Innkaupastefna

Það er stefna fyrirtækisins að:

  • Megin reglan við innkaup sé sú að beita opnum útboðum við kaup á vörum, þjónustu og verkframkvæmdum og að hagstæðasta tilboði sé tekið. Verði opnum útboðum ekki viðkomið, skal beita lokuðum útboðum, fyrirspurnum og beinum samningum eða innkaupum. Innkaupareglur og innkaupaaðferðir skulu vera skýrar og gegnsæjar.
  • Við innkaup sé tekið tillit til öryggis-, heilbrigðis-, gæða- og umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar, þ.e. ef vörur eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þá tegund sem minni áhrif hefur á heilbrigði og umhverfi og/eða eru framleiddar skv. vottuðu gæðakerfi.
  • Beita hagkvæmum innkaupaaðferðum með markvissum og skipulögðum vinnubrögðum við innkaup og stuðla þannig að hagkvæmni í rekstri og framkvæmdum fyrirtækisins.
  • Samræma innkaup sem einstakar einingar fyrirtækisins hafa þörf fyrir.
  • Ábyrgð á innkaupum sé á hendi viðkomandi framkvæmdastjóra, enda séu þau ávallt í samræmi við samþykktar fjárhagsáætlanir.
  • Við innkaup sé þess gætt að ákvæðum laga og reglugerða sé fylgt, s.s. reglugerðar um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti nr. 755/2007, eftir því sem við á. Ennfremur alþjóðasamningum, s.s. EES-samningnum. Jafnræðis skal gætt og virt meðal seljanda.

Hvorki starfsmenn né stjórnarmenn geta átt aðild að ákvörðunum um innkaup eða útboð er varða aðila sem þeir eru náskyldir eða í hagsmunatengslum við. Við mat á vanhæfi skal miða við stjórnsýslulög.

Starfsmönnum er óheimilt að þiggja boðsferðir sem tengjast viðskiptum við fyrirtækið nema með sérstakri heimild framkvæmdastjóra.

Innkaupastefnan byggir á gildum og heildarstefnu Veitna og er sett fram til samræmis við eigendastefnu samstæðu OR.