
Leki kom að Deildartunguæð
04. January 2021 - 16:00
Í gærkvöldi kom leki að Deildartunguæð en lögnin flytur heitt vatn frá Deildartungu til Akraness, Borgarness og nærsveita. Talið er að bilunin tengist rafmagnstruflunum í kerfi RARIK á Vesturlandi sem hófust um kl. 22:00 og höfðu þau áhrif að allar dælustöðvar hitaveitunnar á Vesturlandi stöðvuðust.
Bilunin í lögninni varð um 100 m austan við svokallað gil í Flókadalsá og rann heitt vatn frá henni og í ána. Þegar lekinn uppgötvaðist var brugðist hratt við, skrúfað fyrir rennslið í Deildartunguæð og viðgerð hafin. Gekk hún vel og var lögnin komin í fullan rekstur um kl 03:00 í nótt.
Eftirlitsaðilar og landeigendur hafa verið upplýstir um málið.
Mynd: Deildartunguhver.