Vetrartittlingur sást við vatnsból Veitna í Gvendarbrunnum

05. January 2021 - 12:04

Gefin hefur verið út skýrslan Fuglar og önnur dýr á verndarsvæðum vatnsbóla Reykjavíkur og er þetta tuttugasta og fimmta árið sem skýrslan kemur út. Í henni er að finna yfirlit yfir fugla og spendýr sem sjást á brunnsvæðum Veitna í Heiðmörk og nágrenni þeirra, samantekt um fjölda milli ára, flækinga sem sjást og yfirlit fyrir hvert ár síðan 1998. Í ár bar það helst til tíðinda að vetrartittlingur sást á eftirlitsmyndavélum Veitna við Gvendarbrunna í lok nóvember en það er aðeins í annað skipti sem fugl af þeirri tegund sést hér á landi svo vitað sé. Hann er N-amerískur flækingur.

Höfundur skýrslunnar er Hafsteinn Björgvinsson sem fyrst hóf störf við vatnsbólin í Heiðmörk árið 1984.  „Hugsunin á bakvið þetta rit er að nýta má það sem heimildir þegar fram líða stundir. Erfitt er að fá heimildir um hvernig ástand dýralífs var í Heiðmörk áður en skógrækt þar hófst og því fannst höfundi upplagt að koma einu slíku riti á framfæri fyrir komandi kynslóðir,“ segir Hafsteinn.

Þá bendir hann á að Heiðmörkin sé vatnsverndarsvæði og því sé eðlilegt að skráning á dýralífi sé til staðar og sem mestar upplýsingar séu fáanlegar um fjölda og tegundir sem þar þrífast. Hafsteinn segir mikil umskipti hafa átt sér stað á fjölda tegunda síðan hann hóf störf snemma á níunda áratug síðustu aldar. Nokkrar nýjar tegundir hafi þar nú búsetu eða viðdvöl.

„Ýmsar framkvæmdir hafa einnig orðið til þess að fuglar hafa fært varpstöðvar sínar eða horfið af svæðunum,“ segir Hafsteinn en í skýrslunni er sérstaklega talað um háspennulínur þær er liggja yfir Hrauntúnstjörn og hafa t.a.m. grandað mörgum álftum undanfarin ár.
„Það er umhugsunarefni fyrir orkufyrirtæki landsins að leggja ekki raflínur yfir vötn þar sem mikil umferð fugla er eða taka tillit til þess í framtíðinni,“ segir Hafsteinn í skýrslu sinni. 

Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Mynd: Vetrartittlingur. Ljósmyndari:Sigmundur Ásgeirsson.