Tylko po islandsku

Öryggismál verktaka í forgrunni

16. June 2021 - 12:55

Öryggis- og heilsumál verktaka sem starfa fyrir Veitur hafa verið í forgrunni undanfarin misseri. Haldin eru námskeið fyrir starfsfólk fyrirtækja sem koma að framkvæmdum á vegum Veitna, hvort sem um er að ræða einyrkja eða stórfyrirtæki. 

Glatvarmi á Grundartanga nýttur í hitaveitur?

10. June 2021 - 13:20

Elkem Ísland, Veitur og Þróunarfélag Grundartanga ætla í sameiningu að kanna fýsileika þess að nýta varmann sem myndast í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga til að efla hitaveitur Veitna á Vesturlandi. Gestur Pétursson framkvæmdastjóri Veitna og Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem Ísland samt Ólafi Adolfssyni, stjórnarformanni Þróunarfélags Grundartanga hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Þórdís Kolbrúna Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamál- og nýsköpunarráðherra var viðstödd undirritunina sem fram fór í húsakynnum Elkem á Grundartanga.

Skipt um heitt vatn í vesturhluta Reykjavíkur

07. June 2021 - 14:35

Hitaveita Veitna mun á morgun, þriðjudaginn 8. júní, breyta afhendingu heits vatns í þeim hverfum Reykjavíkur sem liggja vestan Elliðaáa, og á Kjalarnesi. Þau fá þá upphitað vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Með þessari aðgerð er allt höfuðborgarsvæðið komið á virkjanavatn en það léttir á vinnslu úr jarðhitasvæðunum svo hægt sé að tryggja sjálfbæran rekstur þeirra um ókomna framtíð og á sama tíma nýta betur framleiðslugetu virkjananna.

Umbunað fyrir að vera með iðnnema á námssamningi

04. June 2021 - 10:00

Veitur, Samtök iðnaðarins og Skólameistarafélag Íslands hafa tekið höndum saman um útfærslu á því hvernig umbuna megi verktökum í útboðum Veitna fyrir að vera með iðnnema á námssamningi. Um er að ræða tímamót í iðnnámi á Íslandi þar sem þetta er í fyrsta skipti sem verkkaupi mun umbuna fyrir það að verktakar hafi iðnnema í vinnu. Skrifað var undir viljayfirlýsingu þess efnis á Grand Hótel Reykjavík. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra var viðstödd undirritunina í gær sem og nokkrir iðnnemar sem eru á starfssamningi hjá Veitum.

Samtaka nú!

23. May 2021 - 12:30

Það er ljóst að landsmenn voru samtaka í klósettferðum á meðan á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva stóð yfir Ahoy höllinni í Rotterdam í gærkvöldi og þjóðin fylgdist spennt með þegar Daði og Gagnamagnið "stigu á svið". Það má glöggt sjá á tölum yfir rennsli á köldu vatni í vatnsveitu Veitna á meðan á útsendingu keppninnar stóð en notkunin minnkaði umtalsvert á meðan íslenska lagið var í loftinu. Stórir viðburðir sem þessi gefa áhugaverðar upplýsingar um sameiginlegt hegðunarmynstur borgarbúa og væntanlega landsmanna allra.
 

Gróðureldar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk

05. May 2021 - 11:28

Nokkur viðbúnaður var hjá Veitum vegna gróðureldanna í Heiðmörk í gærkvöldi. Vatnsból höfuðborgarinnar, og vatnsverndarsvæðið í kringum þau, eru staðsett í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, t.d. af olíu eða öðrum efnum sem geta komist af yfirborði í gegnum jarðlögin og í grunnvatnsstraumana. Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna aukinnar hættu á mengunarslysum, sem skapast getur vegna mikillar umferðar stórra ökutækja er bera með sér töluvert magn eldsneytis inn á vatnsverndarsvæðið.

Endurnýjun búnaðar í fráveitu Veitna

28. April 2021 - 09:16

Veitur munu í sumar hefja framkvæmdir við nokkuð umfangsmikla endurnýjun búnaðar í dælu- og hreinsistöðvum fráveitu á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið stendur yfir í ríflega ár og á þeim tíma verða tímabundnar rekstrartruflanir í stöðvunum og búast má við að í einhverjum tilvikum þurfi að losa óhreinsað skólp í sjó á meðan á þeim stendur. 

Framkvæmdirnar felast í endurnýjun vélbúnaðar í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða og í dælustöðvum við Ingólfsstræti, Laugalæk og Faxaskjól og er gert ráð fyrir að þeim ljúki haustið 2022. 

Saga fráveitunnar loksins skráð

14. April 2021 - 16:04

Bókin CLOACINA – Saga fráveitu er nú komin út á vegum Veitna þar sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur rekur skólpsögu höfuðborgarinnar síðustu liðlega 100 árin. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk bókina afhenta á þeim slóðum er forsíðumynd hennar er tekin sem er í námunda við hið fornfræga almenningssalerni í borginni, Núllið í Bankastræti. Forsíðumyndin sýnir opna skólprennu við hlið vatnsbrunns í Bankastræti.