Ráðningarferlið

Það fyrsta sem þú þarft að huga að þegar þú sækir um starf hjá okkur er að gæta þess að vanda vel til umsóknargagna; vel útfyllt starfsumsókn og vönduð ferilskrá auka til muna líkur þínar á að fá tækifæri til að kíkja við hjá okkur, kynnast starfinu og fyrirtækinu og fá tækifæri til að kynna þig. Hér koma nokkrar ábendingar:

Útfylling umsóknar 

Til að halda skipulega utan um allar umsóknir óskum við eftir að umsækjendur fylli alltaf út umsókn á ráðningavef Veitna. Fylltu vel út starfsumsóknina hvort sem þú sækir um með almennri starfsumsókn eða um auglýst starf. Segðu satt og rétt frá þegar þú fyllir út; það vill enginn lenda í því að vera hankaður á röngum upplýsingum!

Gerð ferilskrár

Helstu atriði sem vænst er að séu til staðar í ferilskrá eru:

  • Persónuupplýsingar (mynd, nafn, heimili, sími og netfang)
  • Menntun (nýjast efst, skóli, nám og áherslur í námi)
  • Starfsreynsla (nýjast efst, vinnuveitandi, starfsheiti og ábyrgðarsvið)
  • Námskeið / Önnur kunnátta (t.d. tungumálakunnátta, tölvufærni)
  • Félagsstörf / áhugamál 
  • Umsagnaraðilar (nafn, sími, vinnuveitandi, tengsl, má hafa samband við?)

Þumalfingursregla er að vera stutt- en gagnorður í ferilskrám og setja upplýsingar fram á skipulagðan hátt; nýjustu upplýsingar koma fram fremst í hverjum kafla.  Æskilegt er að ferilskráin sé ekki lengri en ein til tvær síður. Þótt stíll ferilskrár sé tiltölulega knappur viljum við gjarnan að þú komir á framfæri upplýsingum sem gefa okkur færi á að kynnast þér sem persónu. Gott er ef þú kemur að upplýsingum um hvers konar verkefnum þú hefur áhuga á eða á hvaða sviðum styrkleikar þínir nýtast best. Að lokum minnum við á að „betur sjá augu en auga“: fáðu einhvern til að lesa yfir ferilskrána áður en þú sendir hana til okkar.

Meðferð umsókna

Við förum með allar umsóknir sem trúnaðarmál og svörum öllum umsóknum um auglýst störf þegar  ráðið hefur verið í starfið.  Við svörum hins vegar ekki Almennum umsóknum sérstaklega. Að öllu jöfnu auglýsum við öll störf en það kemur fyrir að við leitum í almennum umsóknum sem sendar hafa verið inn allt að 3-4 mánuðum áður. Viljir þú framlengja gildistíma Almennrar umsóknar þarftu að endurnýja hana.

Val í viðtöl

Því miður getum við yfirleitt ekki boðið nema hluta þeirra sem sækja um starf í viðtal. Val í viðtöl byggir fyrst og fremst á umsókninni og þeim umsóknargögnum sem þú sendir inn. Við meðhöndlum allar umsóknir sem trúnaðarmál og hringjum ekki í umsagnaraðila nema þú hafir veitt til þess leyfi eftir að hafa hitt okkur í viðtali.

Atvinnuviðtalið

Atvinnuviðtal er sameiginlegt tækifæri okkar til að kynnast. Í viðtalinu færð þú nánari upplýsingar um fyrirtækið og starfið sem um ræðir – og við fáum tækifæri til að kynnast þér. Þegar þú kemur í viðtal er ráðlegt að hafa eftirfarandi í huga:

  • Það jafnast ekkert á við fyrstu kynni: komdu tímanlega og snyrtileg(ur) til fara.
  • Vertu vertu vel undirbúin(n); kynntu þér starfið og fyrirtækið s.s. á heimasíðu til þess að átta þig á hvað við höfum að bjóða og til að geta spurt spurninga til að vita hvort þetta sé rétta starfið og vinnustaðurinn fyrir þig.
  • Vertu hreinskilin/n: Heiðarleiki er eitt af gildum okkar; óskaðu eftir hreinskilnum svörum frá okkur og svaraðu af hreinskilni um reynslu þína og þekkingu. Það er enginn vinnustaður eða umsækjandi fullkominn en allir geta lært og bætt við sig!
  • Líttu á viðtalið sem tækifæri beggja aðila til að kynnast og kanna gagnkvæman áhuga. Hreinskilni á báða bóga er mjög mikilvæg; Það er engum greiði gerður með því að fá starf sem hann ræður ekki við eða fékk rangar upplýsingar um.

Val á starfsmanni

Að öllu jöfnu bjóðum við nokkrum aðilum í fyrsta viðtal, hringjum í kjölfarið í umsagnaraðila þeirra sem til greina koma og bjóðum því næst þrengri hóp í annað viðtal. Þar sem við hittum mikið af hæfu og skemmtilegu fólki er oft erfitt að velja á milli umsækjenda. Því miður verðum við því oft að sjá að baki umsækjendum sem ættu fullt erindi í starf hjá Veitum. Ef þér líst vel á Veitur sem vinnustað skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur aftur ef þú sérð spennandi starf í boði.