Ráðningarferlið

Takk fyrir að íhuga að sækja um starf hjá Veitum. Við fögnum öllu góðu fólki.

Það fyrsta sem þú þarft að huga að þegar þú sækir um starf hjá okkur er að skila inn vel útfylltri starfsumsókn, hvort sem þú ert að skila inn almennri starfsumsókn eða sækja um auglýst starf. Vel útfyllt umsókn eykur líkurnar á að við bjóðum þér í viðtal, kynnast fyrirtækinu og fá tækifæri til að kynna þig. Ef þú vilt líka skila inn ferilskrá gerir þú það með því að senda hana sem viðhengi.

Vinnumálastofnun er með ágætar leiðbeiningar um gerð ferilskrár

Þótt stíll ferilskrár sé tiltölulega knappur viljum við gjarnan að þú komir á framfæri upplýsingum sem gefa okkur færi á að kynnast þér sem persónu. Gott er ef þú kemur að upplýsingum um hvers konar verkefnum þú hefur áhuga á eða á hvaða sviðum styrkleikar þínir nýtast best.

Meðferð umsókna 

Við förum með allar umsóknir sem trúnaðarmál og svörum öllum umsóknum um auglýst störf þegar  ráðið hefur verið í starfið. Við svörum hins vegar ekki almennum umsóknum sérstaklega. Almennar umsóknir eru virkar í 3-4 mánuði og ef þú vilt að umsóknin þín gildi lengur þarftu að endurnýja hana.

Val í viðtöl

Því miður getum við yfirleitt ekki boðið nema hluta þeirra sem sækja um starf í viðtal. Val í viðtöl byggir fyrst og fremst á umsókninni og þeim umsóknargögnum sem þú sendir inn. Við förum auðvitað með allar umsóknir sem trúnaðarmál og hringjum ekki í umsagnaraðila nema þú hafir veitt til þess leyfi.

Atvinnuviðtalið

Atvinnuviðtal er sameiginlegt tækifæri okkar til að kynnast. Í viðtalinu færð þú nánari upplýsingar um fyrirtækið og starfið sem um ræðir – og við fáum tækifæri til að kynnast þér.

Undirbúðu þig fyrir viðtalið með því að kynna þér starfið og fyrirtækið til þess að átta þig á hvað við höfum að bjóða og til að geta spurt spurninga til að vita hvort þetta sé rétta starfið og vinnustaðurinn fyrir þig. Þú getur fundið mikið af upplýsingum um okkur á heimasíðunni.

Að öllu jöfnu bjóðum við nokkrum aðilum í fyrsta viðtal, hringjum í kjölfarið í umsagnaraðila þeirra sem til greina koma og bjóðum því næst þrengri hóp í annað viðtal.

Val á starfsmanni

Þar sem við hittum mikið af hæfu og skemmtilegu fólki er oft erfitt að velja á milli umsækjenda. Því miður verðum við því oft að sjá að baki umsækjendum sem ættu fullt erindi í starf hjá Veitum. Ef þér líst vel á Veitur sem vinnustað skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur aftur ef þú sérð spennandi starf í boði.