Rafmagnaðir dagar

Dagur rafmagnsins 23. janúar

Dagur rafmagnsins er haldinn hátíðlegur víða á Norðurlöndum og við höldum upp á það með tveimur viðburðum í vikulokin

Degi rafmagnsins er ætlað að minna okkur á að það er ekki sjálfgefið að hafa aðgang að rafmagni. Hér á landi erum við svo vel sett að hafa nægt rafmagn sem framleitt er með ódýrum og hreinum hætti. Veitur fagna deginum með þemadögum rafmagns sem standa næstu tvær vikurnar. Verður sá tími nýttur á ýmsan hátt til að vekja athygli á rafmagninu en það sem hæst ber eru tveir skemmtilegir viðburðir fyrir alla fjölskylduna.

Skammdegisljós við rafstöðina á fimmtudagskvöld

Fimmtudagskvöldið 25. janúar kl. 17 - 20 verðum við með kósístund í Elliðaárdal. Við ætlum, ásamt systurfyrirtæki okkar Orku náttúrunnar, að bjóða fólki að kíkja í gömlu rafstöðina og fá þar stutta leiðsögn. Heimsókn þangað svíkur engan en stöðin er enn í sinni upprunalegu mynd og afskaplega vel við haldið.

S. Guðjónsson og Smith & Norland ætla að baða gömlu rafstöðina og næsta nágrenni ljósum, sem munu lýsa fram yfir Vetrarhátíð sem lýkur 4. febrúar.

Til að fullkomna kósí stemninguna verður boðið upp á heitt kakó og kleinur, eða "cókó and kleins", eins og það er víst kallað nú til dags.

Rafmögnuð stemning í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum á laugardaginn

Laugardaginn 27. janúar kl. 13 - 16 munu Veitur og Orka náttúrunnar bjóða upp á skemmtun og fræðslu um rafmagnið fyrir alla fjölskylduna. Í veitingahúsinu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum verður Vísindasmiðja HÍ með tilraunir, þrautir, tæki, tól, leiki og óvæntar uppgötvanir fyrir alla aldurshópa og þar getur fjölskyldan leikið sér af hjartans lyst.

Gestir geta meðal annars kynnst undraverðum eiginleikum ljóss, lita, hljóðs og rafmagns, smíðað vindmyllu og margt fleira. Kannaðar verða stjörnur, sólir og tungl og gestum boðið að spreyta sig á að búa til einfalt vasaljós.

Sævar Helgi Bragason fræðir unga sem aldna um leyndardóma raforkunnar.

Boðið verður upp á heitt kakó og kruðerí og aðgangur er ókeypis í garðinn á meðan viðburðurinn fer fram. Allir hjartanlega velkomnir!

Förum vel með rafmagnið