Regluleg mælaskipti

Viðskiptavinir Veitna hafa fengið bréf frá okkur þar sem óskað er eftir því að mælaskiptum, sem eru á tíma næstu misserin, verði frestað.  Ástæðan er sú að Veitur ætla sér að skipta út mælum hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og setja upp nýja kynslóð mæla. Núverandi tegundir mæla eru að verða úreldar og nú er tækifæri til kynslóðaskipta.   

Við viljum því fresta því að skipta út núverandi mælum fyrir aðra af eldri kynslóðinni og afhenda næst snjallari mæla.   

Það að fresta mælaskiptum þar til nýr snjallari mælir er settur upp er gert til að minnka kostnað fyrir veiturnar og lágmarka óþægindi fyrir viðskiptavini þar sem mælaskipti fela það í sér að þeir taki á móti okkur. Auk þess felur frestunin í sér jákvæð umhverfisáhrif þar sem ekki þarf að farga heilum mælum. Við höfum fengið samþykki atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis fyrir þessari frestun enda eru mælarnir í góðu lagi og mæla notkunina rétt. 

Ef viðskiptavinir óska eftir að fá nýjan mæli af eldri gerðinni þá er það velkomið. 

 

Ég vil að þið skiptið um mæli hjá mér, hvenær komið þið? 

Við munum skipta um mæla fyrir þá sem vilja í lok árs. Þá setjum við upp nýjan mæli af eldri gerðinni sem verður svo skipt út þegar kemur að því að setja upp snjallmæla í þínu hverfi. Við munum senda þér tölvupóst með tímasetningu áður en við komum til þín að skipta um mæla.

 

Hvað kostar að fá nýjan mæli vilji ég fá annan af eldri kynslóðinni ? 

Það kostar ekkert að fá nýjan mæli.  

 

Hvað er mælirinn hjá mér gamall? 

Við getum flett því upp fyrir þig. Endilega hafðu samband  

 

Hvaða vandamál geta komið upp þegar ég er með ólöggildan mæli í svona langan tíma ? 

Mælarnir okkar hafa lengri endingartíma en löggilding nær til. Ef að mælirinn fellur ekki í prófunum er litið svo á að hann sé í lagi.  

 

Hvað ef mælirinn minn var bilaður og það kemur í ljós þegar snjallmælir er settur upp? 

Yfirleitt er það þannig að þegar hitaveitumælir bilar fer hann að sýna minni notkun en raunin er, ekki meiri. Það hægist á mælinum og meira magn fer í gegn um hann þannig að viðskiptavinurinn greiðir fyrir minna magn en hann notar. 

Í slíkum tilfellum gæti sú staða komið upp að þegar bilaða mælinum er skipt út þá hækki orkureikningurinn vegna réttra mælinga. Við erum tilbúin til að skoða öll slík mál með sérfræðingum okkar sé þess óskað.

 

Get ég fengið nýjan snjallmæli strax hjá ykkur? 

Nei það er því miður ekki hægt, það verður skipt yfir í snjallmæla hjá öllum í þínu hverfi á sama tíma.  

 

Hvenær verður settur upp snjallmælir hjá mér?  

Útskipting mæla hefst um mitt ár 2022. Við munum skipta veitusvæðinu í 25 svæði og reynt verður að klára hvern hluta áður en byrjað er á þeim næsta. Röðin á svæðunum hefur ekki verið ákveðin.  

Það er því ekki komið á hreint hvenær skipt verður um mæla í þínu hverfi. En þegar röðin kemur að þínu hverfi munum við senda út tilkynningu, erum við með réttar upplýsingar um þig? Kíktu á mínar síður Veitna og kannaðu málið.