Safnkerfi fráveitunnar

Safnkerfi skólps

Skólp er mengað vatn frá heimilum eða atvinnustarfsemi.

Skólp berst fráveitu Veitna frá notendum, bæði frá heimilum og frá atvinnustarfsemi. Það rennur að dælustöðvum sem dæla því í skólphreinsistöðvar. Í skólphreinsistöðvum er skólpið hreinsað þar til það telst hæft til losunar í umhverfið. 

Hreinsistöðvar Veitna eru af tvennum toga. Við sjávarsíðuna eru hreinsistöðvar sem skila hreinsuðu skólpi nokkra kílómetra á haf út. Við þéttbýliskjarna inn til landsins reka Veitur lífrænar hreinsistöðvar sem skila hreinsuðu skólpi í ár eða í jarðveg. Nánar er fjallað um skólphreinsun hér.

Safnkerfi ofanvatns

Ofanvatn er regnvatn eða leysingarvatn sem berst í fráveitur.

Ofanvatni er beint í sína eigin farvegi þar sem það er mögulegt. Þar sem öðru verður ekki fyrir komið blandast það skólpinu og er dælt með því í skólphreinsistöðvar.

Manngerðar tjarnir við Norðlingaholt, Grafarholt, í Fossvogi og víðar á höfuðborgarsvæðinu gegna mikilvægu hlutverki í fráveitukerfinu með því að draga úr því að ýmis mengunarefni komist í ár og læki og hafi þar neikvæð áhrif á lífríkið. Ofanvatn af götum og lóðum rennur í tjarnirnar þar sem mengunarefni, svo sem malbik, gúmmíagnir úr dekkjum, málmar og þungmálmar, eiga þess kost að falla til botns og olíur og bensín að fljóta upp. Reynslan sýnir að allt að 80% mengunarefna verða eftir í tjörnunum. Auk þess jafna settjarnirnar rennsli í viðkvæma viðtaka.

Helstu dælu- og hreinsistöðvar fráveitu Veitna í Reykjavík