Sérbýli

Heimtaugar í sérbýli

Einbýlishús hafa sér rafmagnsheimtaug. Það á einnig oftast við um par- og raðhús. Minnstu rafmagnsheimtaugar eru einfasa 63A, sem samsvarar 14kW.

Hversu stór er heimtaugin mín?

Yfirleitt er hægt að sjá hversu stór heimtaug er með því að skoða stærð aðalvara í rafmagnstöflu.

Á þessum rafmagnstöflum má sjá að stærð heimtaugar er 63A.

Er ég með einfasa eða þriggja fasa rafmagn?

Einfaldasta leiðin til að sjá hversu margir fasar eru tengdir inn í sérbýli er að skoða rafmagnsmælinn. Ef á mælinum stendur 230 V þá er einn fasi tengdur. Ef á mælinum stendur 3x230/400 V þá eru þrír fasar tengdir.

Í flestum tilvikum er hægt að breyta heimtaug úr einfasa yfir í þriggja fasa. Hafðu samband við rafverktaka sem aðstoðar þig við uppsetningu.

Rafmagnsmælar: Einfasa og þriggjafasa.

Hve stóra hleðslustöð þarf ég?

Tegund rafbíls ræður því hversu stór hleðslustöð er nauðsynleg. Einnig þarf að hafa í huga stærð heimtaugar og aðra aflnotkun heimilis.  Algeng hámarksaflnotkun sérbýlis er 5 til 7kW.

Til viðmiðunar má draga hámarksaflnotkun frá stærð heimtaugar til að finna út hversu stóra hleðslustöð er hægt að setja upp.

Hleðslustraumur Hleðsluafl Drægni eftir 1 klst. hleðslu* Hleðslutími 40 kWh rafhlöðu úr 20% í 80%
10A/16A - hefðbundinn tengill 2,3 kW 11 km 10 klst.
16A, einfasa - fasttengd stöð 3,6 kW 18 km 7 klst.
32A, einfasa - fasttengd stöð 7,3 kW 36 km 3 klst.
16A, þriggja fasa - fasttengd stöð 11,0 kW 55 km 2 klst.
32A, þriggja fasa - fasttengd stöð 22,0 kW 110 km 1 klst.
* Miðað við 20 kWh eyðslu á 100 km

Dæmi: 

Stærð einfasa heimtaugar er 63A eða 14kW. 14kW-7kW=7kW sem hægt er að nota til hleðslu.

Athugið að sumar hleðslulausnir bjóða upp á álagsstýringu sem dregur úr afli hleðslustöðvar á meðan önnur notkun heimilis er mikil. Þetta er einnig mikilvægt að hafa í huga þegar fleiri en ein hleðslustöð er sett upp.

Skammstafanir

A = Amper
kW = Kílóvatt
kWh = Kílóvattstund
V = Volt

Meðalakstur fólksbíls er um 40km á dag og því er meðalorkuþörf rafbíls aðeins 8 kWh. 

Hvenær er best að hlaða?

Rafmagnsálag heimila nær yfirleitt hámarki á tímabilinu 16:00-22:00 síðdegis en er síðan í lágmarki frá 22:00-06:00. Við mælum með því að hlaða á þeim tíma þar sem álagið er minnst. Flestum dugar að hlaða yfir nóttina þegar önnur notkun heimilis er lítil.

Flestir rafbílar og sumar hleðslustöðvar bjóða upp á þann möguleika að stilla hvenær hleðsla á að hefjast.

Álagskúrfa rafmagnsnotkunar á dæmigerðu heimili.