Snjallmælar

Veitur hafa ákveðið að snjallvæða alla sína sölumæla í hita-, raf- og vatnsveitum. 

Snjallvæðing mæla felur í sér uppsetningu á nýjum mælum í raf-, hita- og vatnsveitum, ásamt því að koma upp samskiptakerfi á milli mælanna og miðlægs hugbúnaðar sem heldur utan um gögnin sem safnað er og stýrir gagnavinnslunni.

Tilgangur snjallvæðingar mæla er að ná ávinningi til hagsbóta fyrir viðskiptavini og starfsemi okkar. Ávinningur felst m.a. í:

 • Raunreikningum
  Möguleikar verða til útgáfu mánaðarlegra raunreikninga. Í dag er lesið af árlega og áætlunarreikningar gefnir út mánaðarlega. Breytingar sem verða á áætlunartímabilinu, t.d. vegna bilana, koma því ekki fram fyrr en við árlegt uppgjör og það hefur á tíðum verið dýrt fyrir notendur.
 • Orkusparnaði
  Notkunargögnum verður safnað á 15-60 mínútna fresti og þar með skapast möguleiki á að birta viðskiptavinum snið (prófíl) orkunotkunar sinnar. Þannig getur viðkomandi séð notkunarfrávik, áhrif hegðunar og gripið til ráðstafana.
 • Bættri upplýsingagjöf
  Viðskiptavinir munu hafa betri aðgang að upplýsingum um notkun sína á Mínum síðum. Möguleikar verða fyrir viðskiptavini að skilgreina tiltekna þröskulda á ýmsum mælistærðum og fá upplýsingar um frávik.
 • Vöktun afhendingargæða
  Veitur munu hafa ítarlegri upplýsingar en nokkru sinni um afhendingargæði á hverjum afhendingarstað. Það hjálpar til að meta hvort skilyrðum og viðmiðum sé mætt.
 • Bættu viðhaldi dreifikerfa
  Markmiðið er að nýta tæknilegar upplýsingar frá mælunum til að meta ástand dreifikerfa og nýta það mat til að forgangsraða viðhaldsverkefnum þannig að fjármunir séu nýttir þar sem þeirra er mest þörf.

Til að ná fram ávinningi snjallvæðingarinnar þarf að setja upp mæla sem geta safnað gögnum um notkun og afhendingargæði auk þess að senda upplýsingar um mælitækið sjálft. Gögnum er safnað á 15-60 mínútna fresti og þau síðan send með reglubundnu millibili til miðlægs hugbúnaðar. Öll gögn eru dulkóðuð áður en þau eru send úr mæli.

Nánari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga með snjallmælum er að finna hér.