Vatns- og fráveitugjöld

Við sendum eigendum fasteigna á þjónustusvæði okkar reikninga fyrir vatns- og fráveitu. Þeir byggjast á álagningu sem gerð er í janúar á hverju ári. Á álagningarseðlinum koma fram forsendur útreiknings gjaldanna og fjöldi gjalddaga. Hægt er að nálgast álagningarseðil á Mínum síðum.

Auk fasts gjalds á hverja eign er miðað við stærð fasteignar í fermetrum við útreikning. Nánar um útreikning hér í verðskrá.

Gjöldunum er skipt jafnt á 9 gjalddaga frá febrúar til október.

Hvernig lítur dæmigerður reikningur út?

Hvernig er álagningu og reikningum háttað vegna vatns- og fráveitugjalda?

Húseigendur, á þeim svæðum sem Veitur sinna vatnsveitu og fráveitu, fá frá okkur álagningarseðil um miðjan janúar ár hvert. Á seðlinum sem er rafrænn og birtur á Mínum síðum, kemur fram upphæð gjaldanna og hvernig þau skiptast á gjalddaga.

Álagningarseðlar

Álagningarseðlar eru gefnir út um miðjan janúar ár hvert og eru birtir á Mínum síðum - þjónustuvefnum okkar. Viðskiptavinir 67 ára og eldri fá álagningarseðla senda í pósti hafi þeir ekki óskað eftir rafrænni birtingu.

Gjalddagar

Gjöld ársins eru innheimt á 9 gjalddögum frá febrúar til október. Gjalddagar eru 2. dag mánaðar eða næsta virka dag þar á eftir. Hægt er að óska eftir eingreiðslum og er gjalddagi eingreiðslunnar í júní.

Greiðslumáti

Við bjóðum upp á sömu greiðslumáta fyrir vatns- og fráveitugjöld og fyrir orkureikninga, þ.e. boðgreiðslur með kreditkorti, netgreiðslur, greiðsluseðla og beingreiðslur í gegnum viðskiptabanka þinn. Greiðslumáti breytist ekki á milli ára nema þú óskir eftir því. 

Tilkynningar- og greiðslugjald er 65 kr. og seðilgjald 198 kr.

Margir eigendur

Þegar fleiri en einn eigandi á í hluti er í flestum tilfellum eigandi sem er skráður með eigendanúmerið 001 í Fasteignaskrá skráður greiðandi hjá okkur. Sjálfsagt er að senda okkur beiðni  um breytingu á greiðendum, þó verður greiðandi að vera skráður eigandi í Fasteignaskrá. Einnig er hægt að óska eftir því að reikningar fari á eigendur í samræmi við eignarhlutfall.

Eigendabreytingar

Við uppfærum skrár okkar samkvæmt stöðu Fasteignaskrár að kvöldi 3. hvers mánaðar. Við birtum reikninga fyrir næsta gjalddaga þar á eftir á skráða eigendur þann dag.  Ef eign er þinglýst á nýja eigendur er hægt að senda okkur upplýsingar um þær breytingar sem verða frá 3. til 10 hvers mánaðar, ef óskað er eftir að nýr eigandi fái næsta reikning.

Lækkun fráveitugjalds hjá elli- og örorkulífeyrisþegum í Reykjavík

Lækkun á fráveitugjaldi til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega í Reykjavík er alfarið ákvörðun borgarstjórnar hverju sinni og framkvæmd hjá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Nánari upplýsingar má finna á www.reykjavik.is og í þjónustuveri borgarinnar í síma 4 11 11 11.

Lög og reglur

Vatns- og fráveitugjöld eru lögð á samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 og lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009. Heimilt er að leggja á fast gjald og gjald sem miðast við stærð eignar, að hámarki 0,5% af fasteignamati.

Innheimta vatns- og fráveitugjalda

Orkuveita Reykjavíkur annast innheimtu á vatns- og fráveitugjöldum fyrir Veitur. Í verðskrá Veitna eru upplýsingar um kostnað og framkvæmd innheimtunnar.

Lögfræðiinnheimta

Þegar allir gjalddagar vegna álagningar vatns- og fráveitugjalda hvers árs eru gjaldfallnir fara ógreiddar kröfur í lögfræðiinnheimtu hjá Gjaldheimtunni. Viðskiptavinum er bent á að snúa sér þangað. Símanúmer Gjaldheimtunnar er 570 5500.

Lögveð

Lögveðsréttur gildir vegna vatns- og fráveitugjalda. Þinglýstur eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu gjalda samkvæmt 8. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.