Verndum vatnið | Veitur

Verndum vatnið

Veitur - strákur drekkur vatn úr garðslöngu

Stærsta ábyrgð sem við hjá Veitum berum er að gæta vatnsbólanna sem okkur er trúað fyrir, nýta þau með sjálfbærum hætti og koma þessari lífsnauðsyn heim í öll hús. Nægt hreint vatn handa öllum, núna og um alla framtíð, er okkar markmið.

22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins. Það er kjörið tilefni til að hugleiða það undur sem vatnið er. UNICEF á Íslandi tekur virkan þátt í alþjóðlegum degi vatnsins.

Vissir þú að 783 milljónir manna um heim allan hafa ekki aðgengi að góðu drykkjarvatni?

Kynntu þér fleiri staðreyndir og hollráð um kalt vatn.

Verndun neysluvatns

Vatnstökusvæði í Heiðmörk

Kalda vatnið sem kemur úr krönunum okkar er kallað neysluvatn. Það er mikilvægt að neysluvatnið sé hreint og ómengað því við drekkum það og það er notað í ýmiss konar matvælaframleiðslu.

Neysluvatnið á Íslandi inniheldur lítið af steinefnum miðað við nágrannalönd okkar. Það þýðir að vatnið okkar er einstaklega góður svaladrykkur. Jafnvel sá besti í heimi. En samkvæmt helstu kaffisérfræðingum landsins er íslenska vatnið ekki sérstaklega gott til uppáhellingar vegna skorts á steinefnum. Íslenskir kaffiframleiðendur þurfa að brenna kaffibaunirnar meira en gengur og gerist til að vega upp á móti þessu.

Vatnsbólin sem við sækjum vatnið okkar í eru á vatnsverndarsvæði og það er mjög mikilvægt að þessi svæði mengist ekki t.d. með rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum því þessi efni geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið sem rennur neðanjarðar inn í vatnsbólin.

Vatnsból sem Veitur sækja vatn í eru á höfuðborgarsvæðinu, Suður- og Vesturlandi og eru 13 talsins. Vatninu úr þessum vatnsbólum er dreift til um 45% landsmanna.

Þú getur orðið okkur að liði! Vatnsbólin okkar eru dýrmæt og á ábyrgð okkar allra. Við leggjum áherslu á að fólk gæti varkárni í umgengni við vatnstökusvæði okkar, einkum í Heiðmörk.

Á höfuðborgarsvæðinu eru vatnsbólin okkar í Heiðmörk. Á þessari mynd er hægt að sjá stærð vatnsverndarsvæðisins í Heiðmörk. Eins og sjá má er það mjög umfangsmikið. Við hjá Veitum höfum dálitlar áhyggjur af vaxandi umferð um vatnsverndarsvæðið og sérstaklega því þegar verið er að flytja olíu í miklu magni um Suðurlandsveg sem er í útjaðri vatnsverndarsvæðisins.

image name

Vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins

Ýmislegt er gert til að fylgjast með vatnsbólum Veitna og til að koma í veg fyrir að vatnsbólin mengist. Heilbrigðiseftirlit á hverju svæði tekur reglulega sýni af vatninu til að fylgjast með því hvort eitthvað sem á ekki að vera í vatninu hefur komst í það.

Undanfarin ár hafa 97%-100% sýna uppfyllt þær gæðakröfur sem gerðar eru til vatnsins.

Það er mikilvægt að allir sem eiga leið um vatnsverndarsvæði skilji mikilvægi þess að ganga vel um og láti strax vita ef þeir verða varir við eitthvað sem þeir haldi að geti mengað vatnið okkar. Því við viljum eiga hreint vatn fyrir alla í framtíðinni.

Vatnsveita á höfuðborgarsvæðinu

Vatnsvinnsla og vatnsvernd - Bjarni Reyr Kristjánsson - Vísindadagur OR, 14. mars 2017

Áhrif gönguskíða á vatnsvernd - Sunna Mjöll Sverrisdóttir - Vísindadagur OR, 14. mars 2017

Hér á vefnum og á Facebook síðunni okkar er að finna fjölbreyttan fróðleik um vatnsbólin, vatnsvernd, vatnsveituna og vatnið sjálft.

Hollráð

Það má nota hitaveituvatn til að sjóða mat og spara þannig rafmagn