Hreinsun á Nesja­vallaæð

- .

Hreinsun á Nesjavallaæð: heitavatnslaust í Dallandi og Miðdal frá 29. maí - 30. júní

Uppfært 29.6.2023: Hreinsun á Nesjavallaæð er lokið og unnið er að opnun Nesjavallaleiðar. Því miður verður ekki hægt að afhenda heitt vatn í Dallandi, Miðdal og Lynghólsveitu fyrr en a.m.k. sólarhring síðar en áætlað var, þ.e. á laugardaginn 1.7. Viðskiptavinir á svæðinu verða upplýstir um framvinduna.

Seinkun á afhendingu heitavatnsins hefur engin áhrif á opnun Nesjavallaleiðar og það er á áætlun.

Ráðast þarf í hreinsun á Nesjavallaæð til að koma í veg fyrir þrýstingsfall. Slík framkvæmd hefur í för með sér lokun á æðinni og mun því verða heitavatnslaust í Dallandi, Miðdal og Lynghólsveitu frá 30. maí til 30. júní næstkomandi, sjá kort af viðkomandi svæði hér neðar.

Framkvæmdin mun ekki hafa áhrif á heita vatnið á öðrum svæðum í Mosfellssveit né á höfuðborgarsvæðinu. Veitur hafa leitast við að tímasetja framkvæmdina með slíkum hætti að hún valdi sem minnstu raski fyrir notendur á svæðinu enda er minnst notkun á heitu vatni á svæðinu á þessum árstíma. 

Unnið verður á þremur stöðum í lögninni. Fyrst tekur tvær vikur að undirbúa hreinsunina og svo taka hreinsunaraðgerðirnar sjálfar tvær vikur. Þá er settur eins konar skrúbbur inn í lögnina sem hreinsar hrýfið af. 

Leitast verður við að ganga hratt til verks til að tryggja að óþægindi meðal notenda verði sem minnst á framkvæmdatíma.  Tenging á heitu vatni fyrir dreifikerfi í Dallandi og Miðdal er beint af Nesjavallaæðinni og er því eina dreifikerfið sem verður fyrir áhrifum á framkvæmdinni.

Af hverju þarf að hreinsa Nesjavallaæð?

Nesjavallaæð er afar mikilvæg en hún er ein af megin flutningsleiðunum á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Lögnin var síðast hreinsuð árið 2003 og orðið tímabært að hreinsa hana aftur þar sem steinefni úr vatninu hafa fallið á pípuna. Slík uppsöfnun steinefna hefur mikil áhrif á flutningsgetu heita vatnsins og veldur að lokum þrýstingsfalli.

Öryggi tryggt

Til að tryggja öryggi vegfarenda og starfsfólks verður Nesjavallaleið lokað við Selás á meðan hreinsunarvinnan stendur yfir, auk þess verður reiðstígum norðan við Mjódalsveg lokað. Svæðið verður vel merkt og varað við hættunni sem getur skapast.

Óhreinu vatni hleypt á yfirborðið

Hleypa þarf um 60°C heitu óhreinu vatni út á yfirborðið við stýrishús hitaveitu við Mjódalsveg á Reynisvatnsheiði, til að koma í veg fyrir að óhreinindin dreifist út í kerfið og jafnvel heim til fólks. Vegfarendur munu sjá áhrifin á svæðinu, þar sem gróðurinn mun verða fyrir skemmdum af völdum hitans. Þetta er gert í fullu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og skrifstofu umhverfisgæða Reykjavíkurborgar. Veitur munu ganga eins vel frá öllu yfirborði og mögulegt er þegar hreinsun er lokið.Skemmdir á umhverfinu verða ekki varanlegar. Búast má við að vatn geti borist á um 32.000 fm2 svæði en þó er vonast eftir því að nálægar sprungur í bergi taki við mestu af vatninu sem mun þá minnka umfang vatns á yfirborði.

Um Nesjavallaæð

Hitaveituæðin frá Nesjavöllum er um 30 kílómetra löng. Hún flytur um 85 gráðu heitt vatn frá virkjuninni á Nesjavöllum til höfuðborgarsvæðisins. Hún var tekin í notkun árið 1990. Flutningsgeta hennar er liðlega 1.700 lítrar á sekúndu. Lengst af flutti hún um helming alls þess heita vatns sem þörf var fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu heitavatnsframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun, sem hófst 2010, hefur vægi hennar minnkað  og á árinu 2022 runnu eftir Nesjavallaæðinni um 30% heita vatnsins í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig getum við aðstoðað þig?