Hreins­un­ar­að­gerðir vegna óbragðs af vatninu á Akra­nesi

- .

Hreinsun á gróðri í vatnslóni í Berjadalsá

Veitur hafa undanfarna daga leitað skýringa á óvenjulegu bragði af kalda vatninu í bænum. Við höfum einangrað bragðið við lónið í Berjadalsá en vatnsveitan á Akranesi fær vatn frá þremur vatnsbólum; Berjadalsá og lindasvæðum við Slögu og Óslæk. 

Eftir nánari skoðun teljum við að óbragðið megi rekja til  gróðurs sem hefur myndast í lóninu. Unnið verður að hreinsunaraðgerðum í dag og gróðurinn fjarlægður.   

Ekki er neitt sem bendir til þess að nokkuð hættulegt sé á ferð. Engar skaðlegar örverur hafa fundist í sýnum sem tekin hafa verið í dreifikerfinu á Akranesi og það er mat Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og Veitna að óhætt sé að drekka vatnið. Vonumst við til að bragðgæði vatnsins komist aftur í samt lag eftir hreinsunaraðgerðirnar. Við munum upplýsa áfram um stöðu mála eftir því sem fram vindur.  

Uppfært 14:00, 21.8.2023:

Hreinsun í lóninu í Berjaldalsá gekk vel og sýni sem tekin hafa verið í dreifikerfinu koma vel út. Enn telja Veitur og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands að engin hætta sé á ferð. Varðandi bragðið á vatninu þá getur það tekið einhvern tíma fyrir vatnið að endurnýast í lögnum bæjarins. Við höldum áfram að fylgjast með og upplýsa um stöðuna.

 Uppfært kl. 16.00, 19.8.2023:
Sýni af vatni úr stíflunni í Berjadalsá voru greind af svifþörungasérfræði á Hafrannsóknarstofnun í dag. Greiningarnar sýna að grænþörungar hafi verið í vatninu. Sú tegund sem var ráðandi er skaðlaus fólki og dýrum og er því enn mat Veitna, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og Hafrannsóknarstofnunar að óhætt sé að drekka vatnið. Hár lofthiti, stilla og lítið vatnsrennsli undanfarnar vikur hafa líklega valdið aðstæðum í lóninu þar sem mikill vöxtur þörunga gat átt sér stað.
Unnið er að hreinsun og útskiptum á vatni. Vonir standa til að þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í muni koma bragðgæðum í fyrra horf.

Af hverju er þetta að gerast núna? Er þetta óvanalegt? 
Við höfum ekki séð þetta áður. Það er ekki ólíklegt að hlý veðurskilyrði og sólríkt sumar hafi þessi áhrif á gróðurinn. Veðurfarsaðstæður hafa verið með besta móti fyrir gróðurvöxt.  

Af hverju er ekki  hægt að aftengja vatnsbólið í Berjadalsá?  
Ekki er hægt að aftengja vatnsbólið í Berjadalsá frá vatnsveitunni þar sem lindirnar við Slögu og Óslæk anna ekki allri þörfinni yfir daginn. Vatn frá Berjadalsá er hreinsað með síubúnaði og síðan er allt vatn lýst áður en því er veitt inn á dreifikerfið en lýsingin óvirkjar mögulegar örverur í vatninu. 

Er eðlilegt að vatn innihaldi þörunga?
Það er eðlilegt að vatn innihaldi þörunga. Hins vegar getur mikill vöxtur þörunga valdið óþef og bragði af vatni. 

Hvernig getum við aðstoðað þig?