- .
Veitur endurnýja lagnir hitaveitu og rafveitu
Um verkefnið: Endurnýjun á lágspennustrengjum og hitaveitulögnum. Samtímis verða heimlagnir endurnýjaðar þar sem þess gerist þörf.
Verkefnið verður allt unnið vor og sumar 2024, en þó verður því áfangaskipt þannig að skurðir verði einungis á hluta svæðis hverju sinni.
Áhersla er lögð á öryggi vegfarenda og starfsfólks og aðgengi að spítalanum í forgangi.
Uppfært 11.12.2024: Hitaveitulögn skemmdist í framkvæmdum í götunni í gær og verið er að gera við hana í dag. Það tengist ekki framkvæmdum sem hafa verið í götunni undanfarna mánuði, en er óheppilegt slys. Á morgun verður rafmagnslaust á meðan nýir rafmagnsstrengir eru tengdir við kerfið. Verið er að fjarlægja steypuklumpana í vikunni. Því miður er það svo að röð óhappa og veðurfars hefur tafið lokafrágang í Eiríksgötu, en nú sér fyrir endann á framkvæmdum á vegum Veitna í götunni.
Uppfært 5.12.2024: Steypuklumpar sem eru á Eiríksgötu til að vernda gangandi vegfarendur verða fjarlægðir fyrir helgina og aðgengi verður þá eins og fyrir framkvæmdir. Í næstu viku er útlit fyrir nokkur hlýindi og þá er áætlað að setja möl í þær heimkeyrslur sem framkvæmdir hafa raskað. Áætlað var að klára að hreinsa fráveitulagnir á svæðinu áður en svæðið yrði alveg opanað að nýju, en vegna frosts hefur það ekki gengið upp og það bíður eitthvað. Það má gera ráð fyrir að umferð um götuna verði fyrir truflun á meðan lagnir eru hreinsaðar, en það fylgir því ekki rask á yfirborði.
Uppfært 25.11.2024: Vinnu miðar áfram og unnið er að kappi við að loka skurðum og ganga frá yfirborði. Hlýindi í vikunni hjálpa til við hellulögn. Verkið frestast fram í desember með öllum frágangi.
Uppfært 8.11.2024: Ný tímaáætlun fyrir lok þess hluta sem er á Eiríksgötu gerir ráð fyrir verklokum um næstu mánaðarmót. Öll hitaveiturör eru komin í jörðu og verða tengd við húsin þriðjudaginn 12. nóvember. Vinna við tengingar í hvert hús er töluverð sem skýrir lengd hitaveitulokunar hjá íbúum við Eiríksgötu. Að þessu loknu er eftir að leggja rafstreng neðst í Eiríksgötu. Þegar rafmagnið er tengt við húsin þarf að taka rafmagnið af í stutta stund í hverju húsi fyrir sig. Vinna við að fylla í skurði er hafin og hellulögn unnin samhliða því.
Uppfært 18.10.2024: Skurðir í görðum eru smám saman að fyllast aftur og í næstu viku hefst vinna við að fylla í skurði í gangstétt. Byrjað verður efst á Eiríksgötu við Barónstíg. Tengingar hitaveitu verða tvær, annars vegar í um 1-2 klukkustundir og síðar í lengri tíma. Það verður tilkynnt sérstaklega og með fyrirvara.
Uppfært 23.9.2024: Unnið er að lausn til að tryggja sorphirðu við Eiríksgötu. Samkvæmt áætlun mun framkvæmdum ásamt frágangi á svæðinu ljúka um miðjan nóvember.
Uppfært 16.9.2024: Ákveðið hefur verið að fresta áfanganum við Þorfinnsgötu og þar verður því ekki unnið á þessu ári.
Uppfært 20.8.2024: Vinna gengur ágætlega við Eiríksgötu, þó ekki eins og best hefði verið. Plássið er lítið við vinnusvæðið sem hægir á verkinu. Nú er leyfi komið til að loka fyrir umferð í aðra áttina og þá eykst plássið sem nýtist til að vinna áfram.
Uppfært 24.7.2024: Vinna við Eiríksgötu er hafin. Verktakar eru að leggja bráðabirgðalagnir fyrir heitt vatn. Bráðabirgðatengingin verður tengd fimmtudaginn 25. júlí og verður því heitavatnslaust frá klukkan 10:00 til 15:00 þann dag. Verktakar munu einnig hefja vinnu í görðum til að leggja raflagnir í hús. Það má búast við heimsóknum frá verktökum til að kanna hvar rafmagnið kemur inn í hús. Veitur hafa fengið leyfi frá Reykjavíkurborg til að vísa íbúum á bílastæðið við Austurbæjarskóla þar til skólastarf hefst á ný þann 12. ágúst.
Uppfært 10.7.2024: Merkingar hafa verið settar niður og farið verður á næstu dögum í að leggja bráðabirgðalagnir. Eins og áður hefur komið fram verður heitvatnslaust dagpart, en munu íbúar á svæðinu vera upplýstir með fyrirvara.
Uppfært 27.6.2024: Vinna hefst við Eiríksgötu og athafnasvæði verktaka verður á bílastæðinu við gömlu augndeild landsspítalans, Eríksgötu 37. Unnið verður í gangstétt og við það lokast bílastæði meðfram henni. Aðgengi íbúa verður tryggt allan tímann um brýr.
Uppfært 25.6.2024: Vinna hefst á næstu dögum og í fyrsta hluta verður unnið í Eiríksgötu. Bráðabirgðatengingar til að tryggja heitt vatn til íbúa verða gerðar og þá verður heitavatnslaust dagpart, en það er tilkynnt sérstaklega.
Vinnusvæði: Eiríksgata frá Barónstíg að Þorfinnsgötu og þaðan að Egilsgötu.
Tímaáætlun: Júní til loka október 2024. Gera má ráð fyrir að fullum frágangi á svæðinu verði lokið um miðjan nóvember.
Verkefnastjóri Veitna: Auður Guðríður Hafliðadóttir
Samskipti vegna framkvæmda: Silja Ingólfsdóttir, þjónustusviði Veitna
Verktaki: Stjörnugarðar
Eftirlit: Kjartan Kjartansson hjá Hnit