Hollráð um kalt vatn

Neysluvatnið á Íslandi inniheldur lítið af steinefnum miðað við nágrannalönd okkar. Það þýðir að vatnið okkar er einstaklega góður svaladrykkur.

Hollráð um kalt vatn

Innihald kalda vatnsins

Sýrustig kalda vatnsins okkar, þ.e. ph gildi á Reykjavíkursvæðinu er frá 8,75 uppí tæp 9 sem er frekar hátt. Ástæða þess er að vatnið okkar rennur í gegnum hraun sem er ríkt af basalti.

Íslenskt vatn er undir 2 °dh og því mjög mjúkt, á Reykjavíkursvæðinu er það 0,2 til 0,6 °dh eða sérstaklega mjúkt. Ekki á að þurfa nein mýkingarefni eða kalkhreinsi eða sölt í þvotta/uppvöskunarvélar á Íslandi. Mýkt vatnsins hefur þau áhrif að mun minna magn af sápu þarf til að þvo sér um hár og hendur, einnig þarf minna þvottaduft við fata og diskaþvott.

Neysluvatnið á Íslandi inniheldur lítið af steinefnum miðað við nágrannalönd okkar. Það þýðir að vatnið okkar er einstaklega góður svaladrykkur. En samkvæmt helstu kaffisérfræðingum landsins er íslenska vatnið ekki sérstaklega gott til uppáhellingar vegna skorts á steinefnum. Íslenskir kaffiframleiðendur þurfa því að brenna kaffibaunirnar meira en gengur og gerist til að vega upp á móti þessu.

Hugum að heimilinu

Hefur þú skoðað lagnirnar þínar nýlega? Tjón vegna vatnsleka eru alltof algeng í heimahúsum og því er mikilvægt að yfirfara lagnir og lagnagrindur reglulega.

Veist þú hvar inntakið fyrir kalda vatnið er á þínu heimili? Kynntu þér málið og athugaðu hvort aðrir heimilismenn þekki það líka. Það þarf að vera vel merkt og aðgengilegt. Merkingar fást til dæmis í verslunum með lagnaefni.

Tryggðu gott aðgengi að vatnsinntakinu svo auðvelt sé að skrúfa fyrir.

Þá er mikilvægt að niðurfall sé í gólfi þar sem inntakið er. Brýnt er að hreinsa niðurföll reglulega svo vatnið geti runnið sína leið ef lagnir fara að leka.

Hvernig getum við aðstoðað þig?