Öryggismál

Á hverju ári stöndum við hjá Veitum fyrir heilmiklum framkvæmdum og bregðumst við bilunum. Þessu fylgir oft rafmagns- eða vatnsleysi hjá notendum, truflun á umferð og jarðrask. Við allar framkvæmdir á okkar vegum er öryggi starfsmanna, verktaka og íbúa í algjörum forgangi. Þess vegna eru mjög strangar reglur um öryggisútbúnað starfsmanna, merkingar og afmörkun svæða. Starfsmenn okkar og verktakar fá reglulega öryggisfræðslu, t.d. varðandi umgengni við rafmagn, heitt vatn og hættuleg efni og skyndihjálp. Þá er verktökum skylt að fylla út áhættumat áður en verk hefst.

Við leggjum ríka áherslu á að upplýsa íbúa um væntanlegar og yfirstandandi framkvæmdir, m.a. með nýlegri leið að senda sms í símanúmer sem skráð eru á viðkomandi svæði og hefur það mælst mjög vel fyrir. Einnig dreifum við miðum í hús, setjum tilkynningar á vefinn okkar og Facebook síðu og auglýsum með öðrum hætti eftir atvikum. Þegar stórar framkvæmdir eru í burðarliðnum sendum við bréf til íbúa og fyrirtækja á viðkomandi svæði.

Þegar framkvæmdum lýkur göngum við þannig frá vinnusvæðinu að ekki sjáist ummerki um framkvæmdirnar.