Samþykktir

Samþykktir veitna ohf.

Image alt text

Nafn félagsins heimili og tilgangur

1. gr.

Félagið er opinbert hlutafélag og nafn þess er Veitur ohf.

2. gr.

Heimili félagsins er að Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur félagsins er rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns og hitaveitu, auk annarrar starfsemi sem hefur sambærilega stöðu.

Hlutafé

4. gr.

Hlutafé félagsins er 4.000.000,- kr. Hlutafénu er skipt í hluti og er hver hlutur ein króna að nafnverði. Heimilt er að gefa út eitt hlutabréf fyrir öllu hlutafé hluthafa.

5. gr.

Félaginu skal óheimilt að eiga hlut í sjálfu sér.

6. gr.

Ákvarðanir um hækkun eða lækkun hlutafjár skulu teknar á hluthafafundi.

7. gr.

Félagið skal eingöngu fjármagnað í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur sef.

8. gr.

Stjórn félagsins skal halda hlutaskrá samkvæmt lögum. Heimilt er að hafa skrána í tryggu lausblaðaformi eða rafræna. Ef hlutabréf eru gefin út með rafrænum hætti er útskrift úr skrá verðbréfamiðstöðvar fullgild hlutaskrá. Hlutaskrá skal geymd á skrifstofu félagsins og á hluthafi og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar.

Í hlutaskrá skal greina:

a. Nafn, kennitölu og heimilisfang hluthafa.

b. Númer og fjárhæð hlutar.

c. Upplýsingar um atkvæðisrétt hluthafa og skal þar jafnframt geta allra þeirra samstæðutengsla sem hlutafélagið er í.

d. Útgáfudag hlutabréfs.

9. gr.

Eiganda skal vera óheimilt að framselja eða veðsetja hlut sinn í félaginu.

Hluthafafundir

10. gr.

Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.

Hluthafi fer með ákvörðunarvald sitt í málefnum félagsins á hluthafafundum.

Hluthafafundir skulu haldnir á heimili félagsins. Þó er heimilt, með sérstakri samþykkt, að halda hluthafafundi annarstaðar, enda sé þess sérstaklega getið í fundarboði.

Félagsstjórn skal boða til hluthafafunda með tilkynningu til hluthafa með tölvupósti eða öðrum rafrænum hætti, nema hluthafi hafi óskað sérstaklega eftir boðun bréflega.

Ætið skal boða stjórnarfólk, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins á hluthafafundi, svo og fulltrúa fjölmiðla á aðalfund.

11. gr.

Aðalfund skal halda eigi sjaldnar en einu sinni á ári, eigi síðar en í júnímánuði og að teknu tilliti til aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur sef. Á aðalfundi skal leggja fram ársreikning og skýrslu endurskoðenda eða skoðunarmanna.

Á aðalfundi skal taka ákvörðun um:

a. Staðfestingu ársreiknings.

b. Hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu.

c. Ákvörðun um þóknun stjórnar.

d. Tillögu félagsstjórnar um starfskjarastefnu félags standi lög til þess.

e. Kosningu stjórnar.

f. Kosningu endurskoðenda.

g. Önnur mál.

Fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund opinbers hlutafélags. Kjörnum fulltrúum eigenda Orkuveitu Reykjavíkur sef. er heimilt að sækja aðalfund með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir.

Félagsstjórn boðar til hluthafafunda. Skal fundarboð sent með mest fjögurra vikna en minnst einnar viku fyrirvara en tveimur vikum fyrir aðalfund hið skemmsta. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá fundar.

12. gr.

Handhafi hlutafjár í félaginu fer með ákvörðunarrétt á hluthafafundi. Eitt atkvæði fylgir hverjum einnar krónu hlut í félaginu.

13. gr.

Hluthafafundi stýrir fundarstjóri. Fundurinn kýs fundarstjóra úr hópi fundarfólks.

Fundarstjóri skal láta kjósa fundarritara sem heldur fundargerðabók. Í fundargerðabók skal skrá ákvarðanir hluthafafundar. Skrá yfir viðstadda og umboðsmenn skal færð í fundargerðabók eða fylgja henni. Fundargerð skal lesa upphátt fyrir fundarlok og skrá þar athugasemdir ef fram koma. Fundarstjóri getur þó óskað eftir heimild fundarins til að ganga frá fundargerð án þess að hún sé lesin upp á fundinum. Handhafi hlutafjár eða viðstaddur umboðsmaður hans, fundarstjóri og fundarritari skulu undirrita fundargerðabók.

Í síðasta lagi fjórtán dögum eftir hluthafafund skal hluthafi eiga aðgang að fundargerðabók eða staðfestu endurriti fundargerða á skrifstofu félagsins. Fundargerðabók skal varðveitt með tryggilegum hætti. Fulltrúar fjölmiðla skulu í síðasta lagi fjórtán dögum eftir aðalfund eiga aðgang að fundargerðabók vegna aðalfundar opinbers hlutafélags eða staðfestu endurriti fundargerðar aðalfundar á skrifstofu félagsins.

Stjórn og framkvæmdastjórn

14. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm einstaklingum og tveimur til vara, sem kjörnir eru á aðalfundi til eins árs í senn. Þrír aðalmanna ásamt varamönnum skulu vera starfsmenn samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur sef. Skal tryggtað hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40% meðal aðal- og varamanna og skulu hlutföllin í stjórn og varastjórn í heild vera sem jöfnust. Meirihluti stjórnar getur skuldbundið félagið.

Forstjóri gerir tillögu til aðalfundar um hverjir skuli kosnir í stjórn. Áður skal hann kynna tillögu að skipan stjórnar fyrir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

15. gr.

Kjörið stjórnarfólk skal uppfylla eftirfarandi hæfisskilyrði:

a. vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðað gjaldþrota,

b. ekki hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, eða lögum um hlutafélög,

c. skal vera fjárhagslega sjálfstætt,

d. skal hafa reynslu og þekkingu sem nýtist í starfi stjórnar,

e. skal ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga sem stunda framleiðslu eða sölu raforku

Veitur ohf. er eining tengd almannahagsmunum og sinnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Til að vernda trúverðugleika félagsins í samfélaginu skal stjórnarfólk ávallt gæta að því að hegðun þess og háttsemi hafi ekki neikvæð áhrif á hagsmuni og orðspor félagsins. Verði uppvíst um slíkt missir viðkomandi hæfi og umboð til starfa í þágu félagsins. Hið sama á við um framkvæmdastjóra og lykilstarfsfólk. Það er í höndum þess eða þeirra sem veitir viðkomandi umboð að meta hvort brotið hefur verið gegn ákvæðinu.

16. gr.

Stjórn skal sjálf skipta með sér verkum.

17. gr.

Félagsstjórn fer með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn skal setja félaginu stefnu í samræmi við ákvæði 21. gr. í samþykktum þessum. Félagsstjórn ræður framkvæmdastjóra og ákvarðar starfskjör hans. Félagsstjórn og framkvæmdastjóri fara með stjórn félagsins.

Félagsstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Stjórn skal setja sér starfsreglur. Starfsreglur skulu birtar á vef félagsins. Einnig skal hún gera starfsáætlun fyrir hvert rekstrarár.

Einungis félagsstjórn getur veitt prókúruumboð.

Stjórnarfólk og framkvæmdastjórar skulu gefa stjórn skýrslu um eign sína í félögum skipti það máli varðandi starf þeirra.

Eftirfarandi ákvarðanir eru háðar staðfestingu hluthafafundar:

• Ákvarðanir sem tiltekið er í eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur sef., að skuli hljóta samþykki eigenda.

• Ákvarðanir um einstakar nýjar skuldbindingar enda sé fjárhæð þeirra yfir 5% af eigin fé félagsins samkvæmt síðasta ársreikningi eða árshlutareikningi.

18. gr.

Stjórn ber að fara reglulega yfir og upplýsa eiganda um stöðu mála og framkvæmd stefnumörkunar í einstökum málaflokkum.

19. gr.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn og eða hluthafafundi sbr. 14. gr., nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.

20. gr.

Félagið skal starfa samkvæmt þeim vottuðu stjórnunarkerfum sem í gildi eru á hverjum tíma hjá Orkuveitu Reykjavíkur sef., eftir því sem við á.

21. gr.

Stjórn skal setja fyrirtækinu heildarstefnu og framtíðarsýn í samræmi við eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur og skilgreina í henni mælikvarða í rekstri fyrirtækisins. Stefnumörkun félagsins skal samræmast eftirfarandi stefnumörkun fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, sem í gildi eru á hverjum tíma:

a. Gæðastefna.

b. Upplýsingaöryggisstefna.

c. Öryggis-, heilsu- og vinnuvernd.

d. Umhverfis- og auðlindastefna.

e. Mannauðsstefna.

f. Starfskjarastefna.

g. Siðareglur.

h. Innkaupastefna.

i. Áhættustefna.

j. Jafnréttisstefna.

k. Stefna í upplýsingatæknimálum.

l. Persónuverndarstefna.

Reikningar og endurskoðun

22. gr.

Endurskoðendur félagsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur Orkuveitu Reykjavíkur sef.

23. gr.

Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt fyrir endurskoðanda eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.

Breytingar á samþykktum

24. gr.

Ákvörðun um breytingar á samþykktum þessum skal aðeins tekin á hluthafafundi.

25. gr.

Ákvörðun um félagsslit, án þess að um gjaldþrotaskipti sé að ræða, skal tekin á hluthafafundi og vera háð staðfestingu eigenda Orkuveitu Reykjavíkur. Skal þá hluthafafundur óska löggildingar hlutafélagaskrár á kosningu skilanefndar fyrir félagið.

Lokaákvæði

26. gr.

Samþykktir þessar skulu birtar á vef félagsins. Jafnframt skal birta á vef félagsins ársreikning, samstæðureikning og sex mánaða árshlutareikning félagsins.

27. gr.

Þar sem samþykktir þessar mæla ekki fyrir um hvernig með skuli farið í einstökum málefnum, skulu ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög, laga um Orkuveitu Reykjavíkur ásamt ákvæðum annarra laga og sameignarsamnings Orkuveitu Reykjavíkur, gilda eftir því sem við á hverju sinni.

Samþykkt svo breytt á aðalfundi þann 27. apríl 2022.

Samþykktir Veitna staðfestar á aðalfundi 27.04.2022.pdf

Hvernig getum við aðstoðað þig?