Aukið grugg í Grábrók­arveitu

Aukning á gruggi varð í vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni í kjölfar jarðskjálftans í gærkvöldi. Svona aukning getur minnkað vatnsgæði en verið er að taka sýni til staðfestingar.


Fréttin hefur verið uppfærð.



Í varúðarskyni er viðkvæmum neytendum bent á að sjóða neysluvatn til drykkjar en óhætt er að nota vatnið til annarra þarfa. Vatnið er gegnumlýst til að koma í veg fyrir óæskilegar örverur en virkni lýsingar getur minnkað við aukið grugg.

Vatnsbólið þjónar Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Borgarnes fær vatn frá Seleyri og Hafnarfjalli og ná tilmælin því ekki til íbúa og fyrirtækja í Borgarnesi.

„Vatnsból Veitna í Grábrókarhrauni er viðkvæmara fyrir skjálftavirkni en önnur vatnsból okkar og hafa sérfræðingar Veitna verið að störfum í alla nótt. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands er að taka sýni til að staðfesta vatnsgæði og munu niðurstöður liggja fyrir á morgun. Við erum að biðja viðkvæma neytendur að sjóða vatn eingöngu í varúðarskyni þar til niðurstöður mælinga liggja fyrir,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna.

Til að tryggja brunavarnir er ekki unnt að taka vatnsbólið úr rekstri.

Hér má sjá leiðbeiningar MAST um suðu neysluvatns.


Uppfært 11. júlí kl. 12:00

Niðurstöður úr sýnatökum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands sem teknar voru í gær í dælustöð Veitna í Grábrókarhrauni komu vel út. Þær sýna engar skaðlegar örverur og eru vatnsgæðin því góð. Tilmæli sem Veitur gáfu út í varúðarskyni í gær, um að gott væri fyrir viðkvæma notendur á svæðinu frá Bifröst að Hamarslandi að sjóða neysluvatn, eru því ekki lengur í gildi. 

Image alt text

Hvernig getum við aðstoðað þig?