Það er óþarfi að kynda allan heiminn!

21. febrúar 2019 - 16:28

Í gær settu Veitur nýja auglýsingaherferð í loftið sem ætlað er að minna fólk á að fara vel með heita vatnið. Herferðin kallast "Það er óþarfi að kynda allan heiminn" og Í henni er sýnt á myndrænan hátt hvernig varmi tapast úr híbýlum okkar eftir ýmsum leiðum. Mikilvægt er að nýta heita vatnið vel, það skilar sér í budduna hjá viðskiptavinum; bæði með minna keyptu magni af heitu vatni sem og í betri rekstri hitaveitunnar, sem til lengri tíma litið skilar sér einnig í lægri orkureikningi.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir hlýtur UT-verðlaun Ský 2019

12. febrúar 2019 - 15:51

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, forstöðumaður Framkvæmda Veitna, hlaut á dögunum UT-verðlaun Ský 2019 en þau voru afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem veitti verðlaunin í ár.

Heitavatnsnotkun í hámarki – dregur úr í kvöld

02. febrúar 2019 - 11:48

Aldrei áður hefur verið notað meira af heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu en sl. sólarhring. Síðustu klukkustundina var metrennsli þegar íbúar og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu nýttu tæplega 17.000 rúmmetra af heitu vatni og met fyrir meðalrennsli á sólarhring hefur einnig verið slegið. í dag lítur út fyrir að hægur vöxtur verði á notkun fram eftir degi en síðan dragi jafnt og þétt úr. Enn sem komið er hefur ekki þurft að takmarka afhendingu heits vatns til stórra notenda á höfuðborgarsvæðinu.

Útlit fyrir metnotkun á heitu vatni um helgina

01. febrúar 2019 - 15:24

Heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist aftur eftir að hún fór minnkandi frá hádegi í gær. Spáð er talsverðu frosti í nótt og á morgun. Veitur gera ráð fyrir að heitavatnsrennslið nái nýju hámarki um helgina og verði þá ennþá meira en nú í vikunni. Enn er því starfað eftir viðbragðsáætlun og fólk er enn beðið að fara vel með heita vatnið.  Ekki hefur þurft að draga úr afhendingu á heitu vatni til stórnotenda, eins og sundlauga, á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er þó að lítið má út af bera í rekstrinum til að til þess gæti komið.

Dregur úr heitavatnsnotkun – enn tvísýnt um helgina

31. janúar 2019 - 16:18

Upp úr hádeginu í dag dró úr heitavatnsnotkun úr hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Það er í fyrsta skipti frá því kuldakastið hófst um síðustu helgi. Spáð er kólnandi veðri fram yfir helgi og munu Veitur fylgjast grannt með stöðunni þar til hlýnar.

Yfirstandandi kuldakast er hvorki það fyrsta né það harðasta sem hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að mæta en viðbragðsáætlun Veitna, sem unnið er eftir, virðist hafa reynst vel. Í samræmi við hana var fólk upplýst um stöðuna fyrr en áður og það beðið um að fara vel með heita vatnið.

Dregið hefur úr aukningu heitavatnsnotkunar

30. janúar 2019 - 19:45

Dregið hefur úr aukningu notkunar á heitu vatni úr hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu frá því hún var mest í gær. Veitur hafa fengið góðar viðtökur við áskorun til íbúa um að fara vel með heita vatnið. Ekki er þó hægt að fullyrða að svo stöddu að aðgerðir viðskiptavina séu farnar að skila sér.

Áframhaldandi viðbúnaður vegna kuldakastsins

30. janúar 2019 - 10:58

Rennsli í hitaveitukerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram að aukast í nótt. Jafnaðarrennslið nemur um 16.400 rúmmetrum þá klukkutíma sem notkunin er mest. Megin skýringin er aukin kynding húsa og varmatap úr þeim vegna kuldans. Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga. Sú veðurspá er ástæða þess að Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun sína. Gangi veðurspáin eftir gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda á föstudag, á meðal þeirra eru sundlaugarnar.

Hvatning til að fara vel með heita vatnið

Kuldakastið reynir á hitaveituna

29. janúar 2019 - 20:11

Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakastsins sem nú stendur yfir. Rennslið um hitaveituæðar Veitna á höfuðborgarsvæðinu náði nýjum hæðum í dag þegar það náði 16 þúsund tonnum á klukkustund að jafnaði í sólarhring. Það er mesta notkun sem sést hefur. Gangi veðurspár eftir næstu daga getur þurft að skerða afhendingu til stórnotenda á heitu vatni; þeirra á meðal eru sundlaugarnar. Veitur eru í sambandi við rekstraraðila þeirra vegna stöðunnar.