Metnotkun á heitu vatni í september

11. október 2018 - 13:39

Metsala var á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í september sé litið til áranna frá 2014. Þá fóru 5578 milljónir rúmmetra til viðskiptavina, bæði heimila og fyrirtækja en fyrra met var sett í septembermánuði árið 2016 þegar notkunin var 4804 milljónir rúmmetra.  Ástæðan er auðvitað tíðarfarið en haustið hingað til hefur verið áberandi kalt. September var ágætur framan af en síðustu 10 daga mánaðarins kólnaði talsvert.

Lokun á Bæjarhálsi

05. október 2018 - 13:48

Vegna tengingar heimaæðar í hitaveitu Veitna verður lokað fyrir umferð á Bæjarhálsi í báðar áttir milli Bitruháls og Höfðabakka frá kl.06:00 á laugardaginn. Reiknað er með því að lokunin standi til kl.18:00, mánudaginn 8. október. 
Grafa þarf þvert yfir götuna. Reynt verður eftir fremsta megni að hraða verkinu þannig að lokunin standi ekki lengur yfir en til mánudags. Aðkoma að Árbæ og Hálsum verður um hjáleiðir sem verða vel merktar.
 

Endurnýjun lagna á Akranesi

04. október 2018 - 09:25

Framkvæmd er nú hafin við Kalmanstorg á Akranesi þar sem Akranesbær endurnýjar hringtorgið og Veitur endurnýja allar lagnir samhliða því. Um er að ræða aðalinnkeyrsluna í bæinn. Reiknað er með að framkvæmdin standi fram í desember 2018 og verður Kalmansbraut lokuð á meðan. 

Hjáleið er um Akranesveg að Esjubraut.

 

Námskeið um blágrænar ofanvatnslausnir

06. september 2018 - 08:30

Endurmenntun HÍ, í samstarfi við Veitur, Reykjavíkurborg, Alta og CIRIA, heldur tvö námskeið á þessu misseri um ofanvatnslausnir.  Á námskeiðunum verður m.a. farið í hönnun mismunandi lausna, grunnforsendur, útreikninga, mengun og öryggismál. Annað er haldið 24. september en þá verður Sue Illman landslagsarkitekt og frumkvöðull í þessum málaflokki með inngangsnámskeið og 27. og 28. nóvember verða Anthony McCloy verkfræðingur og Robert Bray landslagsarkitekt með framhaldsnámskeið. Þessir kennarar hafa allir mikla reynslu af innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í Bretlandi.

Kafbátur í skimun hitaveitulagna

30. ágúst 2018 - 14:39

Veitur skoða þessa dagana ástand stærri hitaveitulagna á höfuðborgarsvæðinu með nýrri tækni sem gefur ítarlegri og betri upplýsingar um lagnir í jörð en áður hefur þekkst. Tæknin felst í því að lítill fjarstýrður kafbátur kafar inn í hitaveitulögnina og dregur á eftir sér búnað sem skimar lögnina; tekur myndir og metur þykkt stálsins af mikilli nákvæmni. Rússneskir tæknimenn frá norska fyrirtækinu Breivoll eru staddir hér á landi með búnað og sérútbúinn tækjabíl, sem fluttur var hingað til lands frá Rússlandi, til verksins.

Meiri kraftur í kalda vatninu í Grundarfirði

28. ágúst 2018 - 11:20

Veitur eru nú að hefja vinnu við endurnýjun á stofnlögn kalda vatnsins í Grundarfirði sem liggur um Borgarbraut, Nesveg og Sólvelli. Með þessum framkvæmdum er verið að bæta þrýsting á köldu vatni til íbúa þegar notkun er í hámarki. 

Lagnir í Öskjuhlíð endurnýjaðar

28. ágúst 2018 - 09:26

Starfsemi Veitna mun ekki fara fram hjá neinum sem á leið um norðurhluta Öskjuhlíðar næstu vikur og mánuði. Í lok ágúst hefst vinna við lagningu stofnlagnar vatnsveitu, ásamt háspennustreng frá Vesturhlíð meðfram Varmahlíð að bílastæði við Perluna. Verkið er mikilvægur liður í því að anna vatnsþörf á svæðinu og tryggja nægt vatn til brunavarna. Gert er ráð fyri að framkvæmdir  standi fram í desember 2018.

Endurnýjun á 7,2 km stofnlögn hitaveitu í Ölfusi lokið

15. ágúst 2018 - 11:22

Í dag verður heitu vatni hleypt á endurnýjaða hitaveitulögn frá Bakka í Ölfusi að Eyrarbakkavegi, ríflega 7 km leið. Með þessu lýkur endurnýjun lagnarinnar frá dælustöð Veitna á Bakka til Þorlákshafnar en 10 ár eru liðin frá því að þeim hluta lagnarinnar sem liggur frá Eyrarbakkavegi að Þorlákshöfn var skipt út. 

Gamla lögnin er ofanjarðar og orðin töluvert veðruð. Hún var lögð árið 1979 og er því að nálgast fertugt. Nýja hitaveitulögnin er niðurgrafin og töluvert sverari en sú gamla til að mæta aukinni heitavatnsnotkun í framtíðinni og tryggja afhendingaröryggi á svæðinu.