Endurnýjun á 7,2 km stofnlögn hitaveitu í Ölfusi lokið

15. ágúst 2018 - 11:22

Í dag verður heitu vatni hleypt á endurnýjaða hitaveitulögn frá Bakka í Ölfusi að Eyrarbakkavegi, ríflega 7 km leið. Með þessu lýkur endurnýjun lagnarinnar frá dælustöð Veitna á Bakka til Þorlákshafnar en 10 ár eru liðin frá því að þeim hluta lagnarinnar sem liggur frá Eyrarbakkavegi að Þorlákshöfn var skipt út. 

Gamla lögnin er ofanjarðar og orðin töluvert veðruð. Hún var lögð árið 1979 og er því að nálgast fertugt. Nýja hitaveitulögnin er niðurgrafin og töluvert sverari en sú gamla til að mæta aukinni heitavatnsnotkun í framtíðinni og tryggja afhendingaröryggi á svæðinu.

Fróðleiksfúsir nemar Jarðhitaskóla SÞ í Deildartungu

07. ágúst 2018 - 15:46

Á þriðja tug nemenda frá 16 þjóðlöndum, sem stunda nám í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, heimsótti Deildartunguhver í júlí en eins og kunnugt er þjónar hverinn hitaveitu Akraness og Borgarness. Heimsóknin er hluti af vettvangsferð nemanna þar sem þeir kynna sér hin ýmsu jarðhitakerfi og er hún fastur liður í námi þeirra. Frá stofnun Jarðhitaskólans árið 1979 hefur ávallt verið staðið fyrir heimsóknum nemenda í Deildartungu þar sem þeir hafa skoðað hverinn og dælustöðina.

Vatnslögn endurnýjuð í Ármúla

26. júlí 2018 - 13:28

Veitur og Reykjavíkurborg eru nú að hefja framkvæmdir í Ármúla, spottanum á milli Háaleitisbrautar og Hallarmúla. Reykjavíkurborg mun endurnýja gangstétt og götulýsingu og Veitur samnýta þann uppgröft sem þarf að eiga sér stað og endurnýja hitaveitulagnir. Lagnirnar eru komnar til ára sinna en þær hafa legið í jörð frá árinu 1967.  

Á meðan á framkvæmdunum stendur verður austari akrein Ármúla 2-6, akstursstefna frá Háaleitisbraut að Hallarmúla, lokuð fyrir akandi umferð. Merkingar með hjáleiðum hafa verið settar upp. Gert er ráð fyrir verklokum 20. ágúst.

Olía í jörð vegna umferðarslyss á vatnsverndarsvæði

25. júlí 2018 - 17:17

Alvarlegur árekstur fólksbíls og vörubíls varð á Suðurlandsvegi við Hólmsá um hádegisbil í dag. Voru ökumenn beggja bifreiðanna fluttir á sjúkrahús. Við áreksturinn láku um 200 lítrar af olíu úr eldsneytistanki vörubifreiðarinnar og í jarðveginn við vegöxlina. Slysstaðurinn er á þeim hluta þjóðvegar 1 er liggur á grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarbúa í Heiðmörk. 

Umfangsmiklar framkvæmdir í Suður Mjódd

23. júlí 2018 - 13:04

Umfangsmiklar framkvæmdir Veitna eru nú að hefjast sunnan til í Mjóddinni í Reykjavík. Mikil uppbygging, m.a. á aðstöðu íþróttafélagsins ÍR í hverfinu, kalla á nýjar fráveitulagnir þar sem eldri lagnir liggja þar sem fyrirhugað er að nýtt íþróttahús félagsins rísi. Önnur uppbygging í suðurhluta Mjóddar kallar einnig á framkvæmdir á vegum Veitna á sama tíma. Grafa þarf skurði víða um svæðið, leggja í þá lagnir og að því loknu, ganga frá yfirborði. Talsverð umferð vörubíla og vinnutækja verður á svæðinu á verktímanum sem hefst í lok júlí en verklok eru áætluð í lok janúar 2019.

Mikil notkun á heitu vatni í rysjóttri tíð

20. júlí 2018 - 14:53

Það sem af er ársins hefur verið metsala á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Notkunin á fyrstu sex mánuðunum hefur verið 10% meiri en að meðaltali, sé litið til næstu fjögurra ára á undan. Í fjórum af þeim sex mánuðum sem liðnir eru af árinu hefur notkunin verið meiri en árin á undan, mest í janúar og júní. Dagana 16. - 23. janúar fóru að jafnaði 15.161 rúmmetrar  á klukkustund í gegnum hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu sem er mesta vikunotkunin sem sést hefur. Met í sólarhringsnotkun og notkun á klukkustund voru einnig slegin í janúar.

Hamrahlíð lokað á fimmtudag klukkan 14:00

10. júlí 2018 - 15:25

Þessi frétt verður uppfærð eftir því sem framkvæmdum vindur fram.

 

Uppfært 25. júlí 2018

Til stóð að opna fyrir umferð frá Kringlumýrarbraut inn í Hamrahlíð á morgun fimmtudaginn 26. júlí. Því miður frestast sú opnun þar sem ekki næst að malbika gatnamótin fyrr en á föstudag og opnað verður fyrir umferð laugardaginn 28. júlí, 

Uppfært 10. júlí 2018

Vegna endurnýjunar á aðalæð vatnsveitu Veitna verður Hamrahlíð lokað við Kringlumýrarbraut klukkan 14:00 fimmtudaginn 12. júlí. Lokunin mun standa í um tvær vikur.

Team Veitur í toppformi

26. júní 2018 - 14:30

Team Veitur er harðsnúið lið starfsfólks Veitna sem tekur þátt í WOW Cyclothon í ár. Stífar æfingar hafa staðið yfir undanfarnar vikur og mánuði og eru starfsmennirnir nú í toppformi til að takast á við þessa miklu áskorun. Hluti liðsins er með góða reynslu í farteskinu eftir þátttöku í keppninni fyrra en aðrir eru að stíga sín fyrstu skref í hjólreiðakeppni og vita lítið hvað bíður þeirra í þessari ævintýraferð. Markmiðið liðsins í ár er að gera betur en í fyrra þegar liðið fór hringinn á 43 klst. og 55 mínútum. Aðalatriðið er þó fyrst og fremst að komast heil heim með bros á vör.