Aukin áhersla á öryggi innviða og viðnámsþol

Veitur munu leggja aukna áherslu á öryggi ómissandi innviða, í takt við breyttan veruleika og auknar kröfur um viðnámsþol samfélagsins.

Pétur mun leiða svið Sjálfbærni og öryggi innviða.

Veitur bera ábyrgð á því að tryggja aðgengi að rafmagni, hitaveitu, heilnæmu vatni og fráveitu til heimila, fyrirtækja og komandi kynslóða. Í breyttri heimsmynd er nauðsynlegt að hlúa að og styrkja þessa ómissandi innviði með aukinni áherslu á öryggi og viðnámsþol samfélagsins alls.

Veitur hafa því gert breytingar og sett málaflokk sjálfbærni og öryggi innviða undir eitt svið. Auk sjálfbærnimála mun sviðið bera ábyrgð á skýrari og sterkari áherslu á öryggi ómissandi innviða, í takt við breyttan veruleika og auknar kröfur um viðnámsþol samfélagsins.

Pétur Krogh Ólafsson mun stýra sviðinu. Hann hefur verið lykilstjórnandi hjá Veitum undanfarin þrjú sem forstöðumaður Sjálfbærni og viðskiptaþróunar.

„Fjölþáttaógnir hafa aukist í Evrópu á undanförnum árum og ljóst er að slík þróun kallar á mun markvissari nálgun, einnig hér á landi. innviðir orku- og veitufyrirtækja eru hluti af ómissandi innviðum þar sem við þurfum að efla samstarf okkar á milli en lika við stjórnvöld. Við sjáum að árásir og skemmdarverk á orku- og veituinnviði hafa margfaldast í þeim tilgangi að lama samfélög og valda óreiðu. Verkefnið okkar snýr að því að tryggja að Veitur séu í stakk búnar að mæta fjölbreyttum ógnum – hvort sem þær tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, netógnum, eða markvissum árásum á innviði. Í dag birtast ógnir sjaldan í einni mynd heldur sem samspil margra þátta og til þess að auka viðnámsþol samfélagsins alls þarf víðtækt samstarf," segir Pétur.

Markmið með breyttum öryggisáherslum:

  • tryggja nauðsynlegar varnir fyrir innviði Veitna gegn fjölbreyttum ógnum
  • auka sveigjanleika og viðnámsþol innviða Veitna
  • taka stór skref í átt að auknu öryggi og sveigjanleika innviða á næstu misserum, í nánu samstarfi við sveitarfélög og stjórnvöld.

Með þessum áherslum vilja Veitur leggja sitt af mörkum til að styrkja öryggi, stöðugleika og traust í íslensku samfélagi til framtíðar. Þetta er mikilvægt verkefni – og skýrt dæmi um að Veitur taki hlutverki sínu alvarlega, að tryggja fólki nauðsynleg lífsgæði, líka þegar áföll verða.

Hvernig getum við aðstoðað þig?