Veitur vaxa með samfélaginu
Árið 2026 verður spennandi ár hjá Veitum, ár jarðhitaleitar og borana. Samfélagið okkar stækkar hratt og gert er ráð fyrir þúsundum nýrra íbúða á næstu árum. Það þýðir einfaldlega að við þurfum meiri orku til halda heimilunum hlýjum og notalegum. Veitur hugsa langt í fram í tímann, í áratugum og leggja áherslu á ábyrga auðlindanýtingu, ekki bara fyrir daginn í dag, heldur líka fyrir komandi kynslóðir.
Við þurfum bæði að auka vinnslugetu á núverandi nýtingarsvæðum hitaveitunnar og virkja nýjar jarðhitaauðindir til þess að mæta orkuþörf framtíðarinnar.
Húshitun er grunnþjónusta sem krefst mikillar orku
Húshitun er ein af grunnskyldum veitna og okkur öllum finnst sjálfsagt að hafa það hlýtt heima. Það gera sér þó ekki allir grein fyrir því hversu mikla orku þarf til húshitunar í okkar loftslagi og þar með hversu stórt verkefni það er að auka aflgetu hitaveitna í takt við vöxt samfélagsins.
Aflgeta þeirra hitaveita sem Veitur reka er tvisvar sinnum meiri en afl Kárahnjúkavirkunar. Orkan sem dreift er til almennra notenda á höfuðborgarsvæðinu er um 1/4 af orkunni sem rafveitan dreifir.
Þetta sýnir hversu mikilvægt og stórt verkefni það er að bæta við afli og tryggja nægilegt heitt vatn til að mæta þörfum sívaxandi samfélags.
Ítarlegar rannsóknir að baki hverri holu
Þegar borað er eftir heitu vatni er ekkert gert af tilviljun. Áralangar rannsóknir og kortlagning liggja að baki hverri ákvörðun um nýja holu. Mikil vinna síðustu ára er að skila sér r í aukinni jarðhitaleit frá Rangárþingi eystra að Borg á Mýrum. Að bora góða rannsóknarholu tekur örfáar vikur í framkvæmd, en að baki liggja mörg ár í undirbúningi.
Yfirleitt eru fyrstu rannsóknarholurnar sem boraðar eru á hverjum stað eru svokallaðar hitastigulsholur. Þær eru gerðar með léttum bor og tekur einungis fáa daga að bora. Þá er eingöngu verið að kanna hitafar í berggrunni og ef hitastigulsfrávik kemur fram bendir það til þess að finna megi heitt vatn með borunum. Þá fyrst er tímabært að bora stærri holur til að kanna hvort þar sé raunhæfur möguleiki á nýtingu til húshitunar.
Ólíkar holur á mismunandi stöðum
Fyrir hitaveituna þarf tvennt að koma saman í hverri holu sem á að nota. Annars vegar þarf að vera hiti í jörðinni og hins vegar þarf að vera vatn. Til að sannreyna slíkt er mikilvægt að í upphafi séu boraðar rannsóknarholur.
Á Akranesi er vitað að hiti sé í jörðu og þar hafa verið boraðar holur áður, fyrst á sjöunda áratug síðustu aldar. Þar hefur þó ekki fundist vatn í sömu holum og húshitun á Akranesi notar heitt vatn sem kemur rúmlega 60 km leið frá Deildartunguhver í Borgarfirði.
Þar sem vitað er að heitt vatn er að finna eru boraðar stærri og dýpri holur til að sannreyna hvort þar sé nóg af heitu vatni til langtíma nýtingar. Það á til dæmis við um á Reykjum í Mosfellsbæ.

Hvar á að bora?
Veitum er ekki heimilt að bora hvar sem er og mikil undirbúningsvinna í samningum við landeigendur, umhverfismat og skipulagsyfirvöld á sér stað þegar grunnrannsóknir hafa gefið til kynna hvar möguleiki sé á að finna auðlindir.
Taldar eru miklar líkur á að hægt sé að nýta meira vatn á núverandi lághitasvæðum í Lauganesi og á Reykjum. Þar verða boraðar holur á árinu og vonir bundnar við að hægt verði að hefja nýtingu á þeim á næstu árum.
Á Akranesi og á Borg á Mýrum er talið mögulegt að nýtanlegur jarðhiti sé til staðar, óvissan liggur í hvort þar sé nægjanlegt vatn til staðar. Nýjustu rannsóknir á Akranesi gefa vísbendingar um að við Jaðarsbakka megi finna heitt vatn og þess vegna verður ein hola boruð þar í vor. Ef heitt vatn finnst á Borg eða við Jaðarsbakka á Akranesi verður það kærkomin viðbót við heita vatnið sem kemur frá Deildartungu og Bæjarsveit.
Í Geldingarnesi hefur verið borað og heitt vatn fundist, en magnið dugar skammt. Þess vegna er nú þegar verið að bora meira þar. Vonast er til að nægt heitt vatn sé þar til að bæta við hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.
Á Brimnesi á Kjalarnesi hefur fundist heitt vatn í því magni sem hægt væri að nýta og unnið er að því að halda áfram rannsóknumrbúningi þar.
Þegar heitt vatn finnst, hvað gerist þá?
Þær borholur sem sýna fram á nægt vatn og hitastig er hægt að virkja, en fyrst þarf að fá leyfi allra hlutaðeigandi og ná samningum. Það getur tekið töluverðan tíma, þess vegna hugsa Veitur langt fram í tímann.
Þegar borhola er virkjuð til nýtingar þarf að setja í hana dælubúnað sem passar og hann þarf að panta sérstaklega. Dreifikerfið sem tekur við vatninu þarf að vera tilbúið.
Það getur því undir ákveðnum kringumstæðum tekið nokkur ár þar til heitt vatn úr nýjum holum nýtist til húshitunar.
Auðlindin er ekki óþrjótandi
Veitur leggja áherslu á að byggja upp örugga og sjálfbæra orkuvinnslu sem vex í takt við samfélagið. Jarðhitinn er dýrmæt auðlind og ekki óþrjótandi. Með öflugri jarðhitaleit tryggjum við að framtíðin verði hlý og við getum öll notið þessara lífsgæða til framtíðar.


Framundan eru boranir víða, frá Rangárþingi Eystra að Borg á Mýrum.

Veitur eru ekki að hækka hitaveitugjald heimilanna um 50%. Þessi túlkun byggir á því að horfa einungis á einn hluta gjaldskrárinnar sem er núna 15% af heildarreikningi. Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna fer yfir málin.„“