Breytingar verða á gjöldum vegna raforku og hitaveitu sem hafa í för með sér að meðalheimilið (100 m2 íbúð) greiðir 782 krónur meira á mánuði fyrir heita vatnið og dreifingu rafmagns, alls 9.378 krónur á ári. Meðalheimili með rafbíl greiðir 1.026 krónur meira á mánuði.
Gjöld vegna álagningargjalda fráveitu og kalda vatnsins haldast óbreytt.
Af hverju er verið að gera þessar breytingar?
„Samfélagið er að vaxa og því fylgja umfangsmiklar veituframkvæmdir, auk þess sem orkuskiptunum fylgja töluverðar framkvæmdir. Nauðsynlegt er að gera breytingar á verðskrám til að standa undir eðlilegu viðhaldi sem og nýframkvæmdum svo hægt sé að tryggja rafmagn fyrir orkuskipti og örugga afhendingu vatns til allra,” segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.“
Heitt vatn
Verðskrá Veitna fyrir heitt vatn hækkar um 3,94 % í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs. Breytingarnar hafa í för með sér að meðalheimili greiðir 235 kr. meira á mánuði eða sem nemur 2.820 kr. á ári.
Raforka
Gjöld vegna dreifingar rafmagns og önnur gjöld raforku hækka um 10,7%. Það þýðir að meðalheimili greiðir um 547 krónur meira á mánuði eða sem nemur 6.558 krónur á ári. Meðalheimili með rafbíl greiðir 791 krónur meira á mánuði .
Rétt er að taka fram að verð fyrir raforkudreifingu er oft um helmingur rafmagnskostnaðar heimila til móts við orkusölu sem er tilgreind á reikningi frá raforkusala. Gjöld fyrir raforkudreifingu skiptast svo í gjöld til Veitna, flutningsgjald sem Veitur innheimta fyrir Landsnet og svo jöfnunargjald og virðisaukaskatt.