Hall­dóra stýrir Þjón­ustu Veitna

Halldóra Guðrún Hinriksdóttir er ný forstöðukona þjónustu Veitna.

Halldóra mun leiða vegferð Veitna í að verða framúrskarandi þjónustufyrirtæki og bæta þjónustuupplifun viðskiptavina enn frekar með nýskapandi hugsun og lausnum.

Halldóra er með MBA gráðu frá Edinborgarháskóla með áherslu á stefnumótun og fjármál. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf., JCC ehf og hjá Landsbankanum. Hún hefur meira en 20 ára reynslu af stjórnun og forystu og hefur sérhæft sig í stefnumótun, verkefna- og breytingastjórnun ásamt straumlínustjórn.

Halldóra Guðrún Hinriksdóttir segir:

„Ég er mjög spennt að hefja störf hjá Veitum og takast á við verkefni sem hafa áhrif á lífsgæði fólks á hverjum degi. Í nýrri stefnu Veitna er allt hugsað út frá viðskiptavininum og mér líka vel áherslur fyrirtækisins í að beita nýsköpunarhugsun í allri þjónustu, sýna meira frumkvæði og vinna að sjálfbærum lausnum. Það er mjög góð tilfinning að sinna jafn samfélagslega mikilvægum verkefnum og að tryggja fólki aðgengi að hita, rafmagni, hreinu vatni og fráveitu svo ekki sé talað um að vernda auðlindarnar fyrir næstu kynslóðir“ segir Halldóra sem hefur þegar hafið störf.

Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna segir:

„Við erum heppin að fá jafn mikinn reynslubolta og Halldóru í okkar lið. Hún mun gegna lykilhlutverki í að koma Veitum þangað sem við stefnum, að verða framúrskarandi þjónustufyrirtæki, og tryggja að við séum vel tengd við alla viðskiptavini okkar, íbúa, fyrirtæki og sveitarfélög. Við stofnuðum nýtt þjónustusvið Veitna árið 2023 þar sem lagt var upp með meiri skilvirkni og fyrirbyggjandi aðgerðir ásamt því að nýsköpun og tækni eru notuð í meira mæli. Við hlökkum til að vinna að okkar metnaðarfullu markmiðum með Halldóru við stýrið,“ segir Sólrún.

Veitur hafa undanfarin tvö ár komist í úrslit í stærstu þjónustukeppni Evrópu ECCCSA. Í ár fyrir nýtingu gagna í þágu viðskiptavina og í fyrra fyrir besta nýja þjónustusviðið þar sem Veitur hrepptu bronsið.

Hvernig getum við aðstoðað þig?