Hita­veitan áber­andi í kuldatíð

Í kuldatíðinni hefur hitaveitan verið í brennidepli og fulltrúar Veitna verið áberandi í fjölmiðlum.

Í kuldatíðinni hefur hitaveitan verið í brennidepli og fulltrúar Veitna verið áberandi í fjölmiðlum.

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna ræddi málin við Fréttastofu RÚV þann 14. desember og kíkt var í heimsókn í stjórnstöðina.

Sólrún lagði áherslu á að yfir 99 prósent tímans erum við með nægt heitt vatn til alls sem við þurfum og það væri ekki skynsamlega farið með almannafé að stofna til fjárfestinga fyrir tugi milljarða til þess eins að koma í veg fyrir lokun sundlauga í örfáa daga á nokkurra ára fresti.

„Rekstrarlíkan okkar gengur út á það að hafa ákveðinn sveigjanleika í kerfinu, til dæmis til að bregðast við svona köldum dögum þannig að við náum alltaf að forgangsraða til húshitunar,“ sagði Sólrún en aldrei fyrr hafa eins margar íbúðir verið tengdar við kerfi Veitna í eins miklum kulda og nú er. Samningar Veitna við stórnotendur á borð við sundlaugar gefi fyrirtækinu heimild til að skerða vatn til þeirra þegar þörf er á.

Ekki er þar með sagt að ekki sé þörf á framkvæmdum. Það er fyrirséð að vatnsnotkun muni stóraukast á næstu árum samhliða mikilli fólksfjölgun og fámennari og stærri heimilum. Veitur hafi unnið eftirspurnarspár hundrað ár fram í tímann með tilliti til mannfjöldaspár og unnið er út frá þeim. Til standi að nýta betur þau lághitasvæði sem nú þegar eru í notkun og eins er fyrirhuguð stækkun á Hellisheiði. Verið sé að skoða ný lághitasvæði og einnig sé verið að skoða Krýsuvík sem næsta háhitasvæði fyrir höfuðborgina.

Image alt text
Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra veitna

Hvernig getum við aðstoðað þig?