"Hjá­v­eitu­að­gerð" í fráveitu­kerfinu

Vegna endurnýjunar á yfirfallsdælum þarf að stöðva starfsemi skólpdælustöðvarinnar í Faxaskjóli í a.m.k. þrjár vikur, frá og með deginum í dag, föstudeginum 19. ágúst.

Í stað þess að sleppa skólpi óhreinsuðu í sjó, eins og þurft hefur þegar bilanir koma upp eða sinna þarf viðhaldi, ætlar starfsfólk Veitna að reyna nýja aðferð og dæla skólpinu fram hjá dælustöðinni og í hreinsistöð. Tilrauninni má líkja við hjáveituaðgerð en bráðabirgðalagnir verða lagðar ofanjarðar og öflugum dælum komið fyrir utan við stöðina í Faxaskjóli. Bráðabirgðalagnirnar verða tengdar við stöðina í dag. Starfsfólk Veitna vonast til að með þessari nýjung verði hægt að koma í veg fyrir eða minnka verulega það magn af skólpi sem fer óhreinsað í sjó vegna framkvæmdanna. Kostnaður við „hjáveituaðgerðina“ er á bilinu 15-20 milljónir króna.​

Nýju dælurnar í Faxaskjóli eru hluti af umfangsmikilli endurnýjun búnaðar í dælustöðvum við Faxaskjól, Laugalæk og Ingólfstræti og í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða á næstu misserum. Á meðan á þeim stendur má búast við að óhreinsuðu skólpi verði veitt í sjó enda kerfið þannig uppbyggt að ekki eru aðrar leiðir færar þegar stöðva þarf reksturinn og ekki verður alltaf hægt að dæla fram hjá stöðvunum eins og nú stendur til.

Rusl á ekki heima í klósettum

Nú sem endranær er fólk minnt á að einungis líkamlegur úrgangur og salernispappír eiga að fara í klósett. Rusli á aldrei að henda í klósett, sé það gert endar það í sjónum ef truflun verður á rekstri dælu- og hreinsistöðva fráveitu og skilar sér oft upp í fjörur sem margar eru nýttar til útivistar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.