Lista­sýning í vatns­geymi

Mastersnemar við arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands héldu sýningu í Litluhlíð, einu af fjölmörgu mannvirkjum Veitna, þann 9. desember síðastliðinn. Litlahlíð stendur við Bústaðarveg nálægt veðurstofu Íslands. Litlahlíð er vatnstankur sem geymir vatnið sem veitt er til elstu byggða borgarinnar.

Image alt text

Sýningin var lokaniðurstaða ferlis sem nemendur höfðu verið að vinna að alla önnina.  Allskonar verkefni komu upp úr kafinu en meðal þeirra voru verkefni um aðgengismál í sundlaugum, jarðhitavirkjanir og ígulker til að nefna eitthvað. 

Meðfylgjandi er texti úr sýningarskránni sem fylgdi sýningunni.

Vera í Vatni. Að vera vatn. 

Manneskjan skynjar og tjáir heiminn gegnum vatn. Heim sem við upplifum í mannvirkjum. Heim húsa sem ferskvatn kemur inn í og skólp fer út úr. Heim híbýla þar sem við burstum tennur og förum í sturtu um leið og við skrúfum frá krananum sem stjórnar rennsli vatns úr pípu tengda við vatns geym – líflínu borgarinnar.*

Þótt hlutfall vatns í mannslíkamanum sé á bilinu 50-60% er algengara að skoða vatn út frá afmörkuðu ljósi þess að nýta, vernda sig gegn, ferðast um og synda í vatni.  Þéttbýli byggðist fyrst upp í kringum nýtingu ríkra fiskimiða Atlantshafsins umhverfis eyjuna Ísland og frá því snemma á 20. öld hefur vatn knúið áfram líf í þéttbýlum landsins og verið nýtt til upphitunar. Raf- og hitaveitukerfi landsins voru í fyrstu gerð til þess að létta undir daglegt líf íbúa en í auknum mæli er vatn nú virkjað fyrir iðnaðarframleiðslu og jarðhita- og ferskvatn nýtt í ört vaxandi vellíðanar iðnað.

Með því að stinga sér á kaf í vatnið, hafa nemendur rannsakað ólíkar hugmyndir og eiginleika vatns.

Þau hafa nýtt verkfæri arkitektúrs til þess að kanna, kortleggja, teikna og varpa ljósi á samhengi vatns í byggðu umhverfi út frá víðtækara sjónarhorni en það sem snertir manneskjuna og hýbýli hennar einnar. Sérhvert verkefni felur í sér afmarkaða sýn og hugleiðingu um vatn; eins og það að liggja í bleyti, hlaða, afhjúpa, vernda, ramma inn, hanna og marinera sig í vatni. Saman mynda verkefnin sameiginlega sýn á veru í vatni. Það að vera vatn.

*Vatnsgeymirinn sem rammar inn sýninguna var reistur snemma á sjöunda áratugnum og er einn sex vatnsgeyma á höfuðborgarsvæðinu. Í geyminum eru að meðaltali sjö til átta þúsund tonn af vatni sem kemur úr vatnsbólum í Heiðmörk og er veitt áfram um lagnakerfi borgarinnar inn í hús í elstu byggðum. 

- Anna María Bogadóttir, arkitekt og prófessor við Listaháskóla Íslands. 

Image alt text
Image alt text
Image alt text
Image alt text

Nemendur/sýnendur:

Alexis Gullemin

Amal Sneih

Ágúst Skorri Sigurðsson

Birta Fönn K. Sveinsdóttir

Enza Bidal 

Hildur Árnadóttir

Laufey Jakobsdóttir

Raquel Kvamsdal

Sigrún Perla Gísladóttir

Una Mjöll Ásmundsdóttir

Image alt text
Image alt text

Saga Litluhlíðar

Um er að ræða vatnsgeymi sem Vatnsveita Reykjavíkur reisti á árunum 1963-1965 eftir teikningum verkfræðinganna Gunnars M. Steinsen og Sigurðar Björnssonar, en Hafliði Jónsson garðyrkjustjóri hannaði skipulag og frágang lóðarinnar umhverfis bygginguna. Byggingarferlið hófst með undirbúning svæðisins árið 1962 þar sem sprengingaflokkur hjá Grjótnámi Reykjavíkur fjarlægði þrjú þúsund rúmmetrar af grjóti. Hluti þess var nýttur til fyllingar meðfram byggingunni.

Byggingin stendur ofarlega á hæðinni sem kölluð hefur verið Litlahlíð eða Minni-Öskjuhlíð (nú Veðurstofuhæð) og hýsir vatnsgeymi með tveimur vatnshólfum og lokahús við austurenda. Byggingin er að mestu niðurgrafin og hliðarnar klæddar með jarðvegi og torfi, nema austurhlið, sem er prýdd háum súlnagöngum með sjö steinsteyptum súlum og stálgrindverki meðfram þakbrún. Þar sem byggingin er felld inn í hæðina er hún lítt sjáanleg frá götu og nærliggjandi umhverfi. Vatnsgeymirinn í Litluhlíð er um 2000 fermetrar að flatarmáli og getur rúmað yfir 9000 rúmmetra af vatni, en afkastageta veitukerfis Vatnsveitunnar jókst til muna með tilkomu hans. Geymirinn, sem er nú í eigu Veitna ohf., er enn í notkun og er tengdur lögnum frá dælustöðvum.

Ekki virðast hafa verið gerðar útlitsbreytingar á byggingunni í gegnum tíðina, en í júní 2020 fékkst leyfi til að endurnýja glugga og pússningu á útveggjum og setja þar yfir einangrun og slétta hvíta álklæðningu. Ekki var gert ráð fyrir að klæða á súlurnar á framhliðinni á þann hátt.

Hvernig getum við aðstoðað þig?