Ný dælu­stöð fráveitu

Ný dælustöð fráveitu við Naustavog hefur verið tekin í rekstur.

Nýja dælustöðin við Naustavog. Mynd: Sveinn Elfar Guðmundsson

Ný dælustöð fráveitu við Naustavog hefur verið tekin í rekstur. Hún tekur við af elstu dælustöð fráveitunnar sem stóð hinum megin við voginn, á Gelgjutanga. Þar er nú risin myndarleg íbúabyggð og slík fráveitumannvirki eru almennt óæskileg í bakgarði íbúa.

Dælustöðin við Naustavog tekur við skólpi frá hluta Ártúnshöfða, Ártúnsholti, Smáíbúðahverfi, Blesugróf, Skeifunni og hluta af Vogunum og dælir því áfram í átt að hreinsistöð við Klettagarða. Dælustöðin er búin tækjum af nýjustu gerð og tækni sem einfaldar allan rekstur hennar. Hún er með fjórar öflugar dælur sem hverja fyrir sig er hægt að taka tímabundið úr rekstri án þess að skólp þurfi að fara um yfirfall eða neyðarlúgu. Þannig er hægt að viðhalda stöðinni og hreinsa á meðan hún dælir skólpinu áfram á réttan stað, en það er ekki mögulegt í eldri stöðvum fráveitu meðfram ströndinni. Dælustöðin nýja fylgir því markmiði Veitna um Hreinar strendur-alltaf.

Gelgjutangastöðina þurfti að fjarlægja á tilsettum tíma, enda íbúabyggð í hraðri uppbyggingu á svæðinu, en stöðin var í fullum rekstri og góðu ásigkomulagi. Dælustöðvar fráveitu eru ólíkar kaldavatnsdælustöðvum, því þær fyrrnefndu er ekki hægt að taka úr rekstri og veita um aðrar stöðvar.

Yfirfærsla á nýju stöðina var því tæknilega flókin aðgerð þar sem tengingar og bráðabirgðadælur voru settar upp á meðan stöðin var tengd við kerfið. Sumarið 2023 komu sérfræðingar að utan til landsins og aðstoðuðu við uppsetningu og rekstur á bráðabirgðadælustöð ásamt nauðsynlegum tengingum. Skólpi var veitt um hjáveitu yfir 6 vikna tímabil á meðan nýja stöðin var tengd við kerfið. Án þessarar hjáveituaðgerðar hefðu að jafnaði farið um 300-500 lítrar af skólpi á sekúndu farið beint út í Elliðaárvog í þær vikur sem það tók að tengja nýju stöðina.  

Gelgjutangastöð var gangsett 1985 og var fyrsta stóra dælustöðin í Reykjavík. Frá henni var skólpi dælt áfram að bráðabirgðaútrás við Klepp sem veitti skólpinu 100 m út á sjó. Gelgjutangastöðin var fyrsta dælustöðin í röð af slíkum stöðvum við strandlengjuna með það að markmiði að hreinsa strendur borgarinnar sem þá voru mikið mengaðar og óhollar lífríki og mannfólki.

Veitur þakka öllum þeim sem komu að uppbyggingu stöðvarinnar og sérstaklega Snarfara, félagi sportbátaeigenda, fyrir samvinnu og góð samskipti á meðan byggingu stóð.

Saga fráveitunnar í Reykjavík var skráð af Guðjóni Friðrikssyni og gefin út af Veitum árið 2021. Hún er öllum aðgengileg á vef Veitna: Cloacina-saga fráveitu.

Gamla dælustöðin á Gelgjutanga. Mynd: Guðjón Friðriksson

Hvernig getum við aðstoðað þig?