Sólin og hlýindin undanfarna daga hafa hitað upp híbýli okkar svo um munar.
Heitavatnsnotkun á veitusvæðum Veitna þessa dagana er í óvenjulegu lágmarki. Hún er á pari við notkun í ágúst í fyrra þegar stóra hitaveitulokunin var. Eini munurinn er að það er opið fyrir allar lagnir þessa dagana.
Hvað þýðir það í raun?
Það þýðir að notkunin er svo lítil að það er eins og 160 þúsund manns hafi skrúfað fyrir heita vatnið hjá sér.
Þessa dagana geta Veitur því hvílt lághitasvæðin svo um munar en 92% af höfuðborgarvæðinu fær nú heitt vatn frá virkjunum á háhitasvæðum. Auðlindirnar sem Veitur hvíla á sumrin til að notkun sé sjálfbær fá nú snemmbúna hvíld og vatnsyfirborð í þeim hækkar hratt. Almennt í góðu ári er skipting milli há- og lághitasvæða að vori 70/30.
Veitur leggja mikið upp úr sjálfbærri nýtingu auðlinda og það er ánægjulegt þegar veðrið leggur sitt af mörkum.
Heitavatnsnotkun. Punktarnir tveir sýna annars vegar tengidag fyrir Suðuræð í ágúst 2024 og hins vegar í gær þegar sólin lagði sitt af mörkum.