Veitur fá nýting­ar­leyfi

Tryggir enn frekar nægt framboð á heitu vatni.

Veitur hafa fengið nýtingarleyfi frá Orkustofnun á jarðhita á Bakka og Hjallakrók í sveitarfélaginu Ölfusi. Með leyfinu fá Veitur heimild til að vinna allt að 107,25 l/s að meðaltali yfir árið og 135 l/s hámarksnýtingu á hverjum tíma úr jarðhitageyminum. Til samanburðar var meðalvinnsla ársins 2022 um 64 l/s þannig að heimildir til aukinnar vinnslu eru talsverðar. Vinnsluheimild nýtingarleyfis samsvarar hámarksvinnslugetu þeirra þriggja holna sem Veitur reka á svæðinu en það er mat Veitna að svæðið geti staðið undir meiri vinnslu með frekari borunum.

Vaxandi eftirspurn eftir heitu vatni

Hitaveitan í Þorlákshöfn og í Ölfusi hefur verið í eigu Veitna frá árinu 2014 og þar á undan í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélags Veitna, frá árinu 2000. Þorlákshafnar- og Ölfusveita starfar á grundvelli sérleyfis til rekstrar hitaveitu í Þorlákshöfn og ber Veitum skylda til að tryggja nægjanlegt vatn til hitaveitu.

Auka þarf orkuvinnslu á svæðinu til að mæta vexti í eftirspurn eftir heitu vatni í takti við fólksfjölgun og vegna aukinna umsvifa fyrirtækja. Útlit er fyrir að fjölgun íbúa og fyrirtækja á svæðinu haldi jafnt og þétt áfram á næstu árum. Einnig er litið til aðalskipulags sveitarfélagsins til næstu áratuga og hugmynda um fjölþætt atvinnutækifæri sem byggja á nýtingu jarðhita. Tilgangur fyrirhugaðrar nýtingar á jarðhita er því að tryggja Þorlákshafnar- og Ölfusveitu varma til húshitunar, iðnaðar og annarrar atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu.

Skynsamleg nýting og sjálfbærni að leiðarljósi

„Það skiptir miklu máli að Veitur hafi nú nýtingarleyfi á jarðhita á Bakka. Það hefur verið töluverð fólksfjölgun undanfarin ár í Ölfusi og atvinnulífið er í mikilli sókn. Því er nauðsynlegt að Veitur geti sinnt sinni lögbundnu skyldu og tryggi enn frekar nægjanlegt vatn til hitaveitu. Við viljum vera góður samstarfsaðili allra sveitarfélaga á okkar starfssvæði og þetta er liður í því,“ segir Hrefna Hallgrímsdóttir forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum.

Núverandi áætlanir um aukna framleiðslugetu veitunnar taka mið af fyrirsjáanlegri aukningu í almennri notkun vegna fólksfjölgunar í Þorlákshöfn, og af aukningu í eftirspurn frá stórnotendum. Fólksfjöldaspá gerir ráð fyrir 8 til 10% fjölgun íbúa í Þorlákshöfn til 2029 og útlit er fyrir stóraukna eftirspurn eftir heitu vatni vegna fiskeldis á veitusvæðinu.

„Veitur leggja áherslu á að framtíðarnýting jarðhitans verði með skynsamlega nýtingu og sjálfbærni að leiðarljósi. Við teljum jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga að nýting jarðhitans í Ölfusi er talsvert ólík öðrum stöðum þar sem jarðhiti er nýttur, því óvenjustór hluti jarðhitans á þessu svæði er nýttur til atvinnustarfsemi. Þessum sérkennum ætlum við að hlúa að,“ segir Hrefna.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og sveitarfélagsins Ölfuss, sem og landeigenda á nýtingarsvæðinu.

Image alt text
Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu

Hvernig getum við aðstoðað þig?