Jarðhitaleit Veitna hefur gengið framar vonum að undanförnu. Nú er verið að bora eftir heitu vatni á tveimur stöðum innan Reykjavíkur, annars vegar á Brimnesi á Kjalarnesi og hins vegar á Geldinganesi. Á dögunum urðu sannkölluð tímamót þegar heitt vatn fannst á báðum stöðum. Allt bendir til þess að þarna sé búið að finna nýtt jarðhitakerfi á Brimnesi sem hægt er nýta fyrir höfuðborgarsvæðið. Á Geldinganesi hefur reynst erfitt að finna heitt vatn þó jarðfræðingar hafi lengi talið líklegt að þar væri að finna nýtanlegan jarðhita. Að staðfesta nýjar jarðhitaauðlindir innan borgarmarkanna er afar jákvætt þar sem orkuþörf til húshitunnar og atvinnustarfsemi á svæðinu fer stöðugt vaxandi í takt við stækkandi samfélag.
Hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fær heitt vatn frá virkjununum á Nesjavöllum og Hellisheiði og frá fjórum lághitasvæðum í Mosfellsbæ (Reykjum og Reykjahlíð) og Reykjavík (Laugarnesinu og Elliðaárdal). Núna lítur út fyrir að fimmta og jafnvel sjötta lághitasvæðið sé að bætast við á Kjalarnesi og Geldinganesi og að hægt verði að nýta vatn þaðan fyrir hitaveituna.
Af hverju er þetta fagnaðarefni?
Vöxum með stækkandi samfélagi
Eftirspurn eftir heitu vatni hefur aukist ört með stækkandi samfélagi og Veitur þurfa að vaxa með til að mæta aukinni orkuþörf. Eitt af okkar verkefnum er að leita eftir nýtanlegum jarðhita en viðmið Veitna eru að hámarkseftirspurn eftir heitu vatni til húshitunar aukist að jafnaði um 120 l/s á ári hverju.
Þegar við byrjuðum að leita á Kjalarnesi, fyrir um tveimur árum, vissum við að hiti var frekar hár í berggrunninum þar en það var ekki ljóst hvernig landfræðileg dreifing hans var. Við byrjuðum að bora rannsóknarholur um haustið 2022 sem leiddu í ljós að sterkasta hitafrávikið sé yst á Brimnesi. Því var ákveðið að bora tvær 800 m djúpar rannsóknarholur þar. Í svona verkefnum er alltaf mikil óvissa, sérstaklega þar sem engin jarðhitavirkni er á yfirborði og aldrei hefur verið borað áður á svæðinu. Við urðum því himinlifandi þegar fyrri holan sem við borum á Brimsnesi núna í haust, SV-08, hitti á tæplega 100°C heitt vatn. Vinna við holuna stendur enn yfir en í bráðbirgðaprófi komu tæplega 40 l/s úr holunni.
Til að setja þetta í samhengi þá dugar þetta vatnsmagn fyrir um 2000 manna samfélag miðað við hámarksnotkun.
Enn er ýmislegt sem þarf að skoða til að hægt verði að staðfesta hver vinnslugeta svæðisins gæti orðið. En fyrsta ágiskun er að það verði unnt að vinna allt að 200 l/s af heitu vatni á Brimnesi, sem samsvarar hámarksþörf um 10.000 manna hverfis. Tíminn verður svo að leiða í ljós hvort þessi ágiskun sé of glannaleg, of varfærin eða eitthvað þar á milli.
Á Kjalarnesi höfum við lengi vitað af stóru hitafráviki á norðvestanverðu nesinu. Það voru boraðar um 20 hitastigulsholur á nesinu á árunum milli 1990 og 2000 og þrjár holur sem hafa farið nógu djúpt til að sýna yfir 100°C hita. En til þessa hefur mjög lítið vatn komið inn í holurnar og þær því ekki nothæfar til vinnslu. Þegar farið var í borun á nýju holunni, holu R-44, á Geldinganesi nú í nóvember var því markmiðið fyrst og fremst að reyna að hitta á lekar sprungur sem gefa heitt vatn inn í holuna. Þótt holan sé enn í borun þegar þetta er skrifað virðist vera að þessu markmiði sé náð. Nú þegar er komið um 90°C heitt vatn í hana og fyrsta mat er að það geti verið um 20 l/s.
Hvað tekur nú við á Kjalarnesi?
Núna taka við frekari rannsóknir og boranir. Þegar vinnu við holu SV-08 á Brimnesi lýkur núna á næstu dögum flytur borinn sig á næstu holu, SV-09 sem verður staðsett um 300 m sunnar. Í kjölfarið verður sett af stað langtíma vinnslupróf á SV-08 og vonandi SV-09 líka, þ.e. ef hún reynist gæf. Á næstu árum er síðan áætlað að bora fleiri holur. Í þessum bransa er meðgöngutíminn frekar langur en ef allt gengur að óskum má gera ráð fyrir að vatn frá Brimnesi gæti verið komið inn á kerfið innan þriggja til fimm ára.
Með frekari borunum fáum við smátt og smátt skýrari hugmynd um hvað kerfið ber mikla vinnslu og við getum vitað hvernig pípu þarf að leggja frá vinnslusvæðinu. Hún má hvorki vera of lítil né of stór. Rannsóknirnar eru tímafrekar en þær eru mjög mikilvægar til að tryggja að fjárfestingin nýtist sem best þar sem um háar fjárhæðir er að ræða.
Að sama skapi þarf að setja af stað langtíma vinnslupróf á holu R-44 í Geldinganesi þegar búið verður að bora hana niður á fullt dýpi og koma fyrir vinnslufóðringu í henni. Kanna þarf hvernig kerfið bregst við dælingu og hvort merki sjáist um að kalt vatn komi inn í kerfið við vinnslu. Á næstu árum munum við svo bora fleiri holur og freista þess að finna lekar sprungur víðar og helst á meira dýpi. Niðurstöður þeirra borana munu leiða í ljós hvað Geldinganes stendur undir mikilli vinnslu til framtíðar.
Hvar leitum við að heitu vatni?
Víða á veitusvæðunum er nú verið að bora rannsóknarholur til að kortleggja betur hvar jarðhita er að finna. Þegar borun holu R-44 á Kjalarnesi er lokið flytur borinn sig austur að Laugalandi í Holtum þar sem boruð verður hola sem vonandi verður hægt að nýta til að auka vinnslu fyrir Rangárveitu.
Þá eru Veitur með jarðhitaleitarverkefni í gangi á nokkrum svæðum þar sem boraðar eru grannar og grunnar holur til jarðhitaleitar.
Umfangsmiklar jarðhitarannsóknir hafa farið fram á Kjalarnesi og Laugalandi á síðustu árum og niðurstöður þeirra rannsókna voru notaðar til að staðsetja þær holur sem við erum að bora núna í haust og vetur á Brimnesi og á Laugalandi í Holtum. Þá standa nú yfir jarðhitarannsóknir á Borg á Mýrum og Álftanesi og á næstunni verður farið í rannsóknarboranir í Ásahreppi. Þá er verið að bora rannsóknarholur við sunnanverðan Grafarvog (við Sævarhöfða og Stórhöfða). Áætlanir Veitna gera ráð fyrir að fylgja eftir þeim rannsóknarborunum sem gerðar hafa verið í ár á Álftanesi og Borg á Mýrum með dýpri borunum sem munu skera úr um hvort þar sé að finna nýtanlegan jarðhita.
Jarðhitarannsóknir Veitna eru unnar af sérfræðingum Orkuveitunnar í góðri samvinnu við jarðfræðinga Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Ræktunarsamband Flóa og Skeiða (Ræktó) borar 800 m holurnar en Bergborun hefur borað bróðurpartinn af hitastigulsholum Veitna sl. tvö ár. Allar rannsóknarholur eru boraðar í góðu samstarfi og samráði við landeigendur.
Tengdar greinar :
https://www.veitur.is/frettir/veitur-vaxa-med-staekkandi-samfelagi
https://www.veitur.is/frettir/godur-gangur-i-jardhitaleit
Loftlínur í dreifikerfi rafmagns eru smám saman að hverfa úr umhverfinu á rafveitusvæðum Veitna og stefnt er að því að afleggja þær allar fyrir lok árs 2027. Í stað þeirra koma jarðstrengir sem hafa fjölmarga kosti umfram loftlínurnar.
Veitur hrepptu þriðja sætið í sínum flokki á Evrópsku þjónustuverðlaununum ECCCSA (European Contact Centre and Customer Service Awards) sem haldin voru við hátíðlega athöfn í London 26. nóvember.