Veitur með hæstu einkunn um ákvörð­un­ar­vald og ábyrgð kvenna

Konur í orkumálum (KÍO) gaf nýlega út fjórðu skýrsluna um stöðu kvenna innan íslenska orku- og veitugeirans. Veitur eru með hæstu einkunn úrtaksins eða 71,1%.

Í skýrslunni er skoðað áhrifa- og ákvörðunarvald kvenna í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá síðustu skýrslu hefur lítil breyting orðið á stöðu kynjajafnréttis þegar kemur að ákvörðunar- og áhrifavaldi, þvert á móti hefur ákvörðunarvald og ábyrgð kvenna innan atvinnugreinarinnar farið úr 36 prósentustigum niður í 32%.

Eins og fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar eru Veitur með langhæstu einkunn úrtaksins eða 71,1%. Þrír af fimm stjórnarmeðlimum hjá Veitum eru konur, þar á meðal stjórnarformaðurinn. Æðsti stjórnandi fyrirtækisins er framkvæmdastýra og eru konur 60% næstráðenda fyrirtækisins í framkvæmdastjórn. Þá eru millistjórnendur Veitna 12 talsins og eru konurnar tvær.

Image alt text

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna segir:

„Við hjá Veitum erum afar stolt af því að vera efst í könnun KÍÓ hvað varðar ákvörðunarvald kvenna í íslenska orku-og veitugeiranum. Við vitum að það er forsenda árangurs að ákvarðanir séu teknar af fjölbreyttum hópi sem endurspeglar þjóðfélagið. Við vitum líka að árangur í jafnréttismálum er ekki eitthvað sem gerist að sjálfu sér. Það er ákvörðun að jafna kynjahlutföll og auka fjölbreytni sem stöðugt þarf að vinna að – og það er nákvæmlega það sem við höfum verið að gera og erum hvergi nærri hætt.“

Þrátt fyrir margar jákvæðar breytingar í gegnum árin sýna niðurstöður skýrslunnar í ár ákveðna kyrrstöðu og jafnvel afturför hvað varðar kynjajafnvægi í helstu áhrifastöðum atvinnugreinarinnar.

Einungis ein kona gegnir stöðu æðsta stjórnanda í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi og er það sama hlutfall og fyrir tveimur árum. Á þessu tímabili hefur þó verið ráðið í að minnsta kosti fimm stöður æðstu stjórnenda. Hlutfall kvenna og karla í stjórnum fyrirtækjanna er áfram nánast jafnt, en hlutfall kvenkyns stjórnarformanna lækkar um 25% frá árinu 2020 og eru nú þriðjungur þeirra.

Góðu fréttirnar eru þó þær að við sjáum örla á breytingum í nánustu framtíð í helstu áhrifastöðum innan fyrirtækjanna, því á aldursbilinu 30-44 ára eru tvöfalt fleiri kvenkyns en karlkyns framkvæmdastjórar. Það gefur vonir um að þær færist til enn frekari áhrifa með tímanum.

Helstu niðurstöður skýrslunnar 2023

  • Ákvörðunarvald og ábyrgð kvenna hefur farið úr 36 prósentustigum niður í 32%
  • Ennþá gegnir aðeins ein kona stöðu æðsta stjórnanda í þessum 12 fyrirtækjum úrtaksins
  • Frá síðustu útgáfu hafa fimm nýir forstjórar verið ráðnir, fjórir karlar en einungis ein kona
  • Tækifæri voru til að ráða fleiri konur í framkvæmdastjórn á síðustu 2 árum en í staðinn lækkaði hlutfall kvenna
  • Kvenkyns stjórnarformönnum hefur fækkað um 25%, eru nú aðeins þriðjungur
  • Enginn kvenkyns framkvæmdastjóri yfir 60 ára
  • Tvöfalt fleiri kvk en kk framkvæmdastjórar á aldursbilinu 30-44 ára
  • Vísbendingar um að forveri sé viðmið í ráðningum


Hlutverk KÍÓ er að efla þátt kvenna i orkumálum, styrkja tengsl þeirra og auka áhrif innan orku- og veitugeirans. Félagið er opið öllum kynjum sem vilja stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika í orkumálum og sýna það í verki.

Hér má lesa skýrslu KÍÓ í heild sinni.

Hvernig getum við aðstoðað þig?