Vatns­vernd

Kalda vatnið sem kemur úr krönunum er neysluvatn. Það er mikilvægt að neysluvatnið sé hreint og ómengað því við drekkum það og það er notað í ýmiss konar matvælaframleiðslu.

Vatnsvernd er lykilþáttur í að tryggja gæði neysluvatns til framtíðar. Framkvæmdir og athafnir innan vatnsverndarsvæða eru háð starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga. Þegar áform um slíkt eru uppi er gjarnan leitað eftir áliti Veitna sem hefur almannahagsmuni og vernd vatnstökusvæða í fyrirrúmi í afstöðu sinni. Innan Elliðavatnslands þarf að fá leyfi hjá landeiganda sem er Orkuveitan, móðurfélag Veitna.

Elliðavatnsland

Elliðavatnsland er í eigu Orkuveitunnar


Vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins er fest í sessi í samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla (555/2015) innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnafjarðarkaupstaðar. Í samþykktinni má finna nánari skilgreiningar á svæðunum og þeim reglum sem þar gilda.

Vatnsverndarsvæðin skiptast í fjögur svæði: Brunnsvæði, grannsvæði, fjarsvæði og öryggissvæði. Þau njóta mismikillar verndar eftir áhættu fyrir neysluvatn nútíma og framtíðar. Afstaða Veitna og Orkuveitunnar byggir ávallt á því að verja vatnstökusvæðin með almannahagsmuni að leiðarljósi og stuðst er við ákvæði vatnsverndarsamþykktar. Fyrirspurnum er hægt að beina til vatnsvernd@orkuveitan.is.

Brunnsvæði
Næsta nágrenni vatnsbóls og þar er miðað við bæði fjarlægð og aðrennslistíma. Brunnsvæði eru algjörlega friðuð fyrir óviðkomandi umferð. Framkvæmdir og athafnir sem ekki eru nauðsynlegar vatnsveitunni eru óheimilar. Undanþágur eru ekki veittar.

Grannsvæði
Grannsvæði taka við af brunnsvæðum og eru m.a. skilgreind út frá aðrennslistíma og jarðvegi. Almennt taka Veitur afstöðu gegn framkvæmdum og athöfnum sem beina umferð ökutækja og búnaðar inn á grannsvæðið og flokkast hvorki sem almenn útivist né stuðla að bættri vatnsvernd. Orkuveitan, sem landeigandi Elliðavatnslands, veitir að sama skapi að jafnaði einungis leyfi til athafna sem bæta vatnsvernd eða teljast almenn útivist.

Fjarsvæði
Fjarsvæði ná frá mörkum grannsvæða og allt til enda aðrennslissvæða vatnsbóla. Afstaða Veitna til framkvæmda eða athafna á svæðinu tekur mið af því hvort þær falli að forsendum vatnsverndar og hvort öryggi og mengunarvarnir séu lagðar til grundvallar. Sýna þarf fram á að starfseminni verði ekki fundinn annar staður.

Öryggissvæði
Öryggissvæði liggja á jöðrum brunn-, grann- og fjarsvæða. Mengun á þessu svæði er talin geta borist til grunnvatns og dreifst með því til vatnsbóla. Afstaða Veitna tekur mið af því hvort áætlaðar framkvæmdir eða athafnir falli að forsendum vatnsverndar og hvort fyllstu mengunarvarna verði gætt.

Hvernig getum við aðstoðað þig?