Hollráð fyrir kalt vatn
Kalda vatnið sem kemur úr krönunum er neysluvatn. Það er mikilvægt að neysluvatnið sé hreint og ómengað því við drekkum það og það er notað í ýmiss konar matvælaframleiðslu.
Stærsta ábyrgðin sem við hjá Veitum berum er að gæta vatnsbólanna sem okkur er trúað fyrir, nýta þau með sjálfbærum hætti og koma þessari lífsnauðsyn heim í öll hús. Nægt hreint vatn handa öllum, núna og um alla framtíð, er okkar markmið.
22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins. Hann er kjörið tilefni til að hugleiða það undur sem vatnið er og hversu mikilvægt það er.
Hollráð fyrir kalt vatn
Vatnsbólin sem við sækjum vatnið í eru á vatnsverndarsvæði og það er mjög mikilvægt að við gætum öll varkárni í umgengni við þau. Helsta hættan er að svæðin mengist, t.d. með rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum því þessi efni geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið sem rennur neðanjarðar inn í vatnsbólin.
Á höfuðborgarsvæðinu eru vatnsbólin okkar í Heiðmörk. Á þessari mynd sést stærð vatnsverndarsvæðisins í Heiðmörk. Eins og sjá má er það mjög umfangsmikið eða um 250 ferkílómetrar. Við hjá Veitum höfum áhyggjur af vaxandi umferð um vatnsverndarsvæðið og sérstaklega því þegar verið er að flytja olíu í miklu magni um Suðurlandsveg sem er í útjaðri vatnsverndarsvæðisins.
Það er mikilvægt að allt fólk sem á leið um vatnsverndarsvæði skilji mikilvægi þess að ganga vel um og láti strax vita ef það verður vart við eitthvað sem það heldur að geti mengað vatnið.
Sá hluti vatnsverndarsvæðis sem er í næsta nágrenni vatnsbóls. Lágmarksfjarlægð frá vatnstöku að ytri mörkum brunnsvæðis er 50 metrar og síðan 200 metra geisli frá miðju vatnsbóls í aðrennslisstefnu grunnvatns. Ef útmörk 50 daga aðrennslistíma lenda innan 200 m geislans marka þau lágmarksfjarlægð brunnsvæðismarka. Við afmörkun brunnsvæða er einnig tekið tillit til jarðfræðilegra greininga og staðbundinna aðstæðna svo sem yfirborðsvatnaskila
Grannsvæði tekur við af brunnsvæði á aðrennslissvæði vatnsbóls og liggur eftir aðrennslissvæði að reiknuðum útmörkum 400 daga aðrennslistíma grunnvatns að vatnsbóli miðað við 50 m þykkan vatnsleiðara. Við ákvörðun grannsvæðismarka er einnig tekið tillit til viðkvæmni svæða vegna sprungna, dýpis á grunnvatn, yfirborðsgerðar, lektar og misleitni.
Fjarsvæði tekur við af grannsvæði og nær frá mörkum grannsvæðis allt til enda aðrennslissvæðis vatnsbóls við grunnvatnsskil. Undantekning eru mörk verndarsvæðisins til austurs í átt að Hellisheiði þar sem skilgreint fjarsvæði nær aðeins að ytri mörkum höfuðborgarsvæðisins og Sveitafélagsins Ölfuss. Grunnvatnsskil liggja þar töluvert lengra til austurs.
Öryggissvæði eru utan aðrennslissvæða grunnvatns til vatnsbóla og liggja eftir jöðrum brunn-, grann- og fjarsvæða. Þau eru skilgreind á svæðum þar sem mengun er mögulega talin geta borist af yfirborði með írennsli til grunnvatns og dreifst með grunnvatnsstraumum til vatnsbóla. Gæta þarf viðunandi öryggis við ákvörðun um nýtingu svæðis sem og hönnun og gerð mannvirkja og mengunarvarna. Öryggissvæðum er skipt í tvo flokka eftir eðli svæðisins a) Öryggissvæði vegna grunnvatns: Svæði þar sem talið er að efni sem berast í jörð geti mögulega borist í grunnvatn og þaðan inn á áhrifasvæði vatnstökustaða. b) Öryggissvæði vegna yfirborðsvatns: Svæði þar sem talið er að mengun á yfirborði geti mögulega borist inn á áhrifasvæði vatnstökustaða.
Virkjaðu Tölfræðilegar vafrakökur til að sýna YouTube myndbandið